Ákvörðun um uppsögn sveitar- stjóra tekin á faglegum forsendum

Arnar Árnason oddviti og sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar ritar bréf fyrir hönd sveitarstjórnar til íbúa á vef sveitarfélagsins, í kjölfar þess að Guðmundur Jóhannsson fráfandi sveitarstjóri sendi íbúum sveitarfélagsins bréf, þar sem hann fjallaði um störf sín og starfslok. Arnar segir í bréfinu að það sé skoðun sveitarstjórnar að ákvörðun um að segja upp starfssamningi við fráfarandi sveitarstjóra hafi verið tekin á faglegum forsendum.  

Í bréfinu segir Arnar að fram að þessu hafi sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar kosið að fjalla ekki á opinberum vettvangi um einstök atriði er varða uppsögn sveitarstjóra, þann 15. janúar síðastliðinn. "Sveitarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélags, heyrir beint undir sveitarstjórn og framkvæmir ákvarðanir hennar. Það er því grundvallaratriði að trúnaður og traust ríki í slíku samstarfi þannig að stjórnsýsla sveitarfélagsins í heild sé skilvirk og traust, bæði inn á við og út á við. Sé ekki svo, leiðir slíkt af sér slit á samstarfi aðila.
Sveitarstjórn telur ekki rétt að fjalla opinberlega í dreifiriti um einstök efnisatriði í tengslum við ofangreint. Ljóst er þó að sveitarstjórn og fráfarandi sveitarstjóri líta á málið ólíkum augum og hefur sveitarstjórn margt við bréf fráfarandi sveitarstjóra að athuga. Í bréfinu eignar hann sér hugmyndir og verk, sem búið var að leggja grunn að og voru í vinnslu, þegar hann hóf störf hjá sveitarfélaginu."

Ennfremur kemur framí béfinu, að líkt og oddviti sveitarstjórnar greindi frá í fjölmiðlum þann 16. janúar sl. í kjölfar fréttatilkynningar um uppsögn sveitarstjóra, þá voru umdeild bloggskrif ein og sér ekki ástæða uppsagnarinnar. Upp hafi komið mál þar sem ekki hafi verið samhljómur með sveitarstjóra og sveitarstjórn. "Má þar nefna fjárhagslega samninga af hálfu sveitarstjóra án vitundar, án heimildar og án umfjöllunar sveitarstjórnar. Verklag fráfarandi sveitarstjóra var í andstöðu við reglur sveitarstjórnarlaga um útgjöld úr sveitarsjóði. Það skal sérstaklega tekið fram að samningarnir voru í þágu sveitarfélagsins og á engan hátt í þágu persónulegra hagsmuna sveitarstjóra. Þá er að nefna vitneskju sveitarstjórnarmanna um óánægju með áherslur sveitarstjóra í starfi."

Í niðurlagi bréfsins segir: "Ljóst var að forsendur samstarfs sveitarstjóra og sveitarstjórnar voru ekki lengur fyrir hendi við þessar aðstæður. Það er skoðun sveitarstjórnar að ákvörðun um að segja upp starfssamningi við fráfarandi sveitarstjóra hafi verið tekin á faglegum forsendum. Sveitarstjórn harmar að starfslok Guðmundar hafi borið að með þessum hætti og óskar honum velfarnaðar á nýjum slóðum."

Nýjast