Akureyrskir verktakar óhressir með framkvæmd verðkönnunar

Sex verktökum, fjórum á Akureyri og tveimur í Skagafirði, var boðið að taka þátt í lokaðri verðkönnun vegna framkvæmda við vatnslögn og raflögn á Svalbarðsströnd, milli Svalbarðseyrar og Hallands. Um er ræða verkþátt á vegum Norðurorku og Rarik, í tengslum við framkvæmdir við væntanleg Vaðlaheiðargöng. Tilboðin voru opnuð í vikunni.  

Fjórir verktakar lögðu fram verðtilboð, þrír frá Akureyri og einn úr Skagafirði og átti skagfirski verktakinn lægsta tilboðið en kostnaðaráætlun verksins var upp á rúmar 33 milljónir króna. Verktakar á Akureyri eru mjög ósáttir við hvernig staðið var að verðkönnuninni og þá sérstaklega með að skagfirskum verktökum skyldi boðið að bjóða  í þetta verk hér á svæðinu, á sama tíma og akureyskum verktökum er meinað að bjóða í verk í Skagafirði.

Guðmundur Gunnarsson framkvæmdastjóri G.V. Grafa ehf. á Akureyri segir að menn hafi verið að nota svona verðkannanir í minni verkum. Hér sé hins vegar um að ræða stórt verk upp á tugi milljóna og því hefði ekki átt að vera með verðfyrirspurn heldur hafa útboð, hvort sem það var lokað eða opið. "Sveitarfélög eru með lokuð útboð til þess að tryggja að heimaverktakar vinni þau. Norðurorka, sem er fyrirtæki í eigu Akureyrarbæjar, ákveður hins vegar að leita einnig til tveggja fyrirtækja í Skagafirði í þessari verðkönnun. Langflest verk á vegum Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Dalvíkurbyggðar og fleiri sveitarfélaga hér í kring eru lokuð fyrir aðra en heimamenn. Við fáum ekki að komast að þessum verkum en skagfirðingarnir eiga greiðan aðgang hingað og það finnst okkur ekki réttlátt."

Guðmundur segir að akureysku verktakarnir hafi gert athugasemdir við það hvernig staðið var að málum í síðustu viku en án árangurs. Hann segir að það sé full ástæða fyrir sveitarstjórnarmenn á Akureyri að ræða þessi mál við kollega sína í öðrum sveitarfélögum. "Ef menn vilja hafa það þannig að útboð séu lokuð annars staðar, er það sanngirnismál að það sama sé upp á teningnum hér. Þó er sanngjarnast að útboð séu opin," segir Guðmundur.

Vinnuvélar Símonar Skarphéðinssonar ehf. á Sauðárkróki áttu lægsta tilboð í verkið, tæpar 25,8 milljónir króna, eða 77,5% af kostnaðaráætlun, G. Hjálmarsson hf. á Akureyri átti næst lægsta tilboð í verkið, tæpar 26 milljónir króna, eða 78% af kostnaðaráætlun. GV gröfur buðu rúmar 26,5 milljónir króna, eða um 80% af kostnaðaráætlun og Vélaleiga Halldórs Baldurssonar ehf. á Akureyri bauð rúmar 33,3  milljónir króna, eða 100,2% af kostnaðaráætlun.

Nýjast