Akureyringur vann 9 milljónir króna á skafmiða

Honum fannst svo sannarlega skemmtilegt að skafa, Akureyringnum sem keypti sér á dögunum „7, 9, 13" skafmiða Happaþrennunnar í Hagkaupi á Akureyri. Á miðanum leyndist 9 milljón króna vinningur. Vinningshafinn trúði varla sínum eigin augum þegar hann skóf af miðanum.  

Hann segir að vinningurinn muni koma að góðum notum við að gera upp gamalt hús sem hann á en einnig ætlar hann að leyfa börnunum sínum að njóta góðs af honum. Eins og nafnið á skafmiðanum gefur til kynna eru hæstu vinningarnir 7, 9 og 13 milljónir. Enn eru því eftir tveir risavinningar í þessum vinsæla leik Happaþrennunnar, og ber vel í veiði því langt er gengið á miðaupplagið og viðbúið að fljótlega verði einhverjir tveir 7 og 13 milljónum króna ríkari, segir í fréttatilkynningu frá Happdrætti Háskóla Íslands.

Nýjast