Akureyringur datt í lukkupottinn
Ungur Akureyringur, þriggja barna faðir, var svo heppinn að vinna hinn alíslenska bónusvinning í Víkingalottóinu síðasta miðvikudag. Stærð Víkingalottópottsins heillaði svo hann ákvað að kippa með sér einum miða um leið og hann keypti bensín á bílinn hjá Olís. Á miðvikudagskvöldið sá hann svo á netinu að bónusvinningurinn var seldur á Akureyri og lét renna miðanum í gegnum sölukassa daginn eftir og kom þá í ljós að hann var hinn heppni vinningshafi. Afgreiðslustúlkan varð að hans sögn hvít í framan þegar hún tilkynnti honum upphæðina, rúmlega 7,7 milljónir króna, og hún hafi eiginlega verið í meira sjokki en hann. Vinningshafinn ætlar nota vinninginn til að greiða niður skuldir og í aðra almenna skynsemi, segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá.