Akureyringar skipaðir í heiðursreglu ofursta
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri hafa verið skipaðir í heiðursreglu ofursta Kentucky-ríkis í Bandaríkjunum. Ofurstarnir eru eins konar sendiherrar Kentuckys sem eiga að efla velvilja og samkennd um veröld alla.
Sögu ofurstanna má rekja allt aftur til ársins 1812 þegar átök brutust út á milli Bandaríkjamanna og Breta en opinberlega var heiðursreglan stofnuð árið 1932 sem góðgerðarsamtök. Viðurkenninguna hljóta menn fyrir framlag sitt til samfélagsmála eða þjóðarheilla og fyrir sérstök afrek á hinum ýmsu sviðum.
Meðal þeirra sem hafa hlotið þessa heiðursnafnbót eru Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseti, Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, Betty White leik- og baráttukona, Muhammad Ali hnefaleikakappi, Ashley Judd leikkona og söngvarinn Elvis Presley. Og nú hafa Eiríkur Björn og Eyjólfur bæst í þennan hóp.