Akureyringar sigursælir í hnefaleikum

Síðastliðna helgi fór fram hnefaleikamót á vegum Hnefaleikasambands Íslands í húsakynnum hnefaleikafélags Kópavogs. Á föstudag var keppt í flokki lengra komna og á laugardeginum í flokki byrjenda. Fjórir keppendur frá Fenri á Akureyri kepptu á mótinu en alls voru 26 hnefaleikamenn skráðir til leiks.
Sævar Ingi Rúnarsson, keppti í framhaldsflokki fyrir Fenri og tapaði naumlega með klofnum dómarúrskurði fyrir Mána Borgarsyni.
Almar Ögmundsson, Elmar Freyr Aðalheiðarson og Þóroddur Ingvarsson kepptu fyrir hönd Fenris í byrjenda flokki og sigruðu þeir allir sína bardaga.
Almar og Elmar sigruðu sína bardaga á klofnum dómarúrskurði og Þóroddur sigraði sinn bardaga á TKO (tæknilegu rothöggi) í 1. lotu.
„Flottur árangur hjá strákunum okkar og við hlökkum til að fylgjast með þeim og öllum hinum sem eru að stíga sín fyrstu skref í hnefaleikum hér fyrir norðan,“ segir á vef Fenris mma. /epe.