Akureyringar og Eyjamenn fengu hæstu styrkina úr Ferðasjóði

Akureyringar og Eyjamenn fengu hæstu styrkina þegar Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands úthlutaði í dag styrkjum úr Ferðasjóði íþróttafélaga vegna keppnisferða sem farnar voru á skilgreind mót á árinu 2008. Að þessu sinni var úthlutað 59 milljónum króna til 123 íþrótta- og ungmennafélaga og deilda þeirra. Íþróttabandalag Akureyrar fékk tæpar 14 milljónir króna og ÍBV fékk 8,5 milljónir króna.  

Ferðasjóður íþróttafélaga er tilkominn með framlagi ríkisins til þriggja ára, þ.e. á árunum 2007-2009, og var ÍSÍ falið að úthluta úr sjóðnum. Ferðasjóðnum er ætlað að jafna aðstöðumun og efla íþrótta- og forvarnarstarf, í samræmi við tillögur nefndar sem menntamálaráðuneytið fól á sínum tíma að fjalla um ferðakostnað íþróttafélaga. Með tilkomu Ferðasjóðs íþróttafélaga voru mörkuð tímamót í ferðakostnaðarmálum íþróttahreyfingarinnar. Heildarkostnaður umsókna var tæplega 330 milljónir króna. Sótt var um styrk fyrir 23 íþróttagreinar og dreifðist úthlutunin á 23 héraðssambönd og íþróttabandalög. Langmest var veitt til ferða vegna knattspyrnu, eða 31 milljón. Styrknum er ætlað að mæta og jafna kostnaði íþróttafélaga vegna keppnisferða.

Nýjast