Akureyringar unnu arfaslaka FH-inga sannfærandi á heimavelli sínum kvöld, 30-26, í N1-deild karla í handknattleik. Sigur norðanmanna var mun öruggari en tölur gefa til kynna en Akureyri var nokkrum skrefum á undan allan leikinn og FH átti í raun aldrei möguleika. Frábær fyrri hálfleikur heimamanna lagði grunninn að sigrinum þar sem þeir skoruðu 20 mörk á móti ellefu frá FH. Gestirnir úr Hafnarfirði björguðu þó andlitinu í restina með fínum endaspretti.
Heimamenn í Akureyri mættu gríðarlega einbeittir til leiks en að sama skapi voru FH-ingar í engu takti við leikinn. Akureyringar náðu fljótt góðu forskoti og höfðu yfir, 12-7, þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Vel studdir af hávaðasömum áhorfendum gekk allt í haginn hjá norðanmönnum sem juku forystuna jafnt og þétt. Sóknarleikurinn rúllaði vel, vörnin stóð þétt og Sveinbjörn Pétusson í fínu stuði í markinu. FH var í bullandi vandræðum í sóknarleiknum allan fyrri hálfleikinn, vörnin hriplak og markavarslan arfaslök, en þeir Daníel Freyr Andrésson og Pálmar Pétursson vörðu fjögur skot saman. Það segir sína sögu að FH fékk 20 mörk á sig á 30 mínútum en hálfleikstölur voru 20-11. Sennilega einar lélegustu 30 mínútur FH-inga í vetur en norðanmenn léku á als oddi.
Seinni hálfleikurinn var beint framhald af þeim fyrri. Akureyri nokkrum skrefum á undan í öllum sínum aðgerðum og héldu forystunni í 8-9 mörkum. Það vottaði fyrir aðeins meira biti í varnarleik FH en sóknarleikurinn var enn í molum. Akureyri náði tíu marka forystu, 28-18, þegar tíu mínútur lifðu leiks og slökktu endanlega síðasta vonarneista FH-inga í að fá eitthvað út úr leiknum. FH náði hins vegar að klóra í bakkan í restina og minnka muninn í fjögur mörk en of lítið og of seint og Akureyringar fögnuðu sannfærandi og mikilvægum sigri. Lokatölur, 30-26.
Akureyringar fara í 24 stig en FH hefur áfram 25 stig.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 6 (1), Hörður Fannar Sigþórsson 2, Heimir Örn Árnason 4, Geir Guðmundsson 5, Oddur Gretarsson 6 , Guðmundur Hólmar Helgason 5, Bergvin Gíslason 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 22.
Mörk FH: Ólafur Gústafsson 6, Ragnar Jóhannson 1, Sigurður Ágústsson 2, Hjalti Þór Pálmason 4 (4), Ari Magnús Þorgeirsson 3, Örn Ingi Bjarkason 3, Atli Rúnar Steinþórsson 3, Þorkell Magnússon 1, Halldór Guðjónsson 1, Ísak Rafnsson.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 6 (1), Pálmar Pétursson 3,