Akureyri lagði Aftureldingu sannfærandi að velli, 28-23, er liðin mættust að Varmá í kvöld í N1-deild karla í handknattleik. Norðanmenn höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 14-12. Akureyri fer með sigrinum upp í 20 stig í þriðja sæti deildarinnar en Afturelding situr áfram í því næstneðsta með sjö stig. Oddur Gretarsson var markahæstur í liði Akureyrar í kvöld en hann skoraði sjö mörk. Hörður Fannar Sigþórsson skoraði sex mörk og Bjarni Fritzson og Geir Guðmundsson fimm mörk hvor. Í liði Aftureldingar voru þeir Böðvar Páll Ásgeirsson og Jóhann Jóhannsson markahæstir fimm mörk hvor.
Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrar, varð fyrir hnjaski í leiknum og þurfti að yfirgefa völlinn snemma leiks. Þetta eru slæm tíðindi fyrir Akureyrarliðið en Heimir hefur glímt við meiðsli í mest allan vetur og gengur ekki heill til skógar.