Akureyri úr leik í bikarnum

Það gekk fátt upp hjá Akureyringum í dag gegn sterku liði FH.
Það gekk fátt upp hjá Akureyringum í dag gegn sterku liði FH.

Akureyringar eru úr leik í Eimskipsbikarnum í handknattleik karla eftir þrettán marka tap gegn FH í Kaplakrika í dag í 16-liða úrslitum keppninnar. Lokatölur í Hafnarfirði urðu 34-21. Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar eða allt þar til staðan var 5-5. Þá tóku FH-ingar öllu völd í leiknum og höfðu sjö marka forystu í hálfleik, 16-9.

Norðanmenn náðu góðum kafla í upphafi síðari hálfleiks og minnkuðu muninn í þrjú mörk. Þá komu brottrekstravandræði hjá Akureyringum og FH jók muninn á ný og norðanmenn misstu algjörlega dampinn undir lokin og voru hreinlega niðurlægðir af FH-ingum sem léku sér að andstæðingnum í restina.

Lokatölur 34-21 og bikarævintýri Akureyringa var stutt í ár eftir að liðið lék til úrslita í fyrra. FH-ingar voru einfaldlega miklu betri í dag og eru til alls líklegir í keppninni miðað við frammistöðu liðsins í þessum leik.

Mörk FH: Ólafur Gústafsson 9, Þorkell Magnússon 8, Örn Ingi Bjarkason 4, Halldór Guðjónsson 4, Andri Berg Haraldsson 3, Hjalti Pálmason 2, Bjarki Jónsson 2, Sigurður Ágústsson1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 22.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 6, Guðmundur Hólmar Helgason 6, Heimir Örn Árnason 6, Heiðar Þór Aðalsteinsson 2, Geir Guðmundsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 13, Stefán Guðnason 1.

Nýjast