Akureyri hafði betur gegn Val, 27-25, er liðin mættust í Höllinni fyrir norðan í lokaumferð N1-deildar karla í handknattleik í kvöld. Valur hafði eins marks forystu í hálfleik, 17-16, en eftir spennandi lokamínútur voru það norðanmenn sem höfðu betur. Jafnræði var með liðunum í byrjun og aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum þar til Valur náði þriggja marka forystu, 11-8, eftir sautján mínútna leik. Valur náði mest fjögurra marka forystu í fyrri hálfleik, 12-8, en Akureyri minnkaði muninn í eitt mark fyrir hálfleik. Staðan í leikhléi, 16-17, Val í vil.
Heimamenn komust fljótlega yfir í seinni hálfleik og höfðu tveggja marka forystu, 20-18, þegar tíu mínútur voru liðnar. Leikurinn var stál í stál næstu mínútur þar sem liðin skiptust á að hafa forystu. Eftir jafnar lokamínútur voru heimamenn sterkari á endasprettinum og tryggðu sér tveggja marka sigur.
Þar sem FH vann Hauka í kvöld dugir sigur Akureyringa ekki til þess að ná öðru sæti deildarinnar og þar með heimaleikjaréttinn í undanúrslitum.
Í úrslitakeppninni mætast annars vegar Akureyri og FH og hins vegar Haukar og HK. Haukar og FH eiga heimaleikjaréttinn en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslit.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 9 (4), Hörður Fannar Sigþórsson 5, Guðmundur Hólmar Helgason 3, Geir Guðmundsson 2, Oddur Gretarsson 3 (1), Guðlaugur Arnarsson 2, Heimir Örn Árnason 2, Daníel Örn Einarsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 9 (1), Stefán Guðnason 3.
Mörk Vals: Sturla Ásgeirsson 9 (4), Sveinn Aron Sveinsson 5, Valdimar Fannar Þórsson 3, Anton Rúnarsson 3, Magnús Einarsson 2, Orri Freyr Gíslason 2, Atli Már Báruson 1.
Varin skot: Hlynur Morthens 17 (1).