Akureyri sigraði grannaslaginn

Heimir Örn Árnason liðsmaður KA stingur sér í gegnum vörn Akureyrar. Mynd/Þórir Tryggvason.
Heimir Örn Árnason liðsmaður KA stingur sér í gegnum vörn Akureyrar. Mynd/Þórir Tryggvason.

Líf og fjör var í Íþróttahöllinni á Akureyri í gærkvöld þegar Akureyri Handboltafélag og KA mættust í toppslag Grill 66-deild karla í handknattleik. Akureyri hafði betur í hörkuleik, 24-20. Höllin var þéttsetin og rafmagnað andrúmsloft.

Í umfjöllun á vef KA um leikinn segir að KA hafi skorað fyrsta mark leiksins en Akureyri svaraði með næstu fjórum mörkum. Munurinn hélst tvö til þrjú mörk lengst af fyrri hálfleiks en Akureyri náði mest fimm marka forskoti þegar nokkuð var liðið á hálfleikinn. KA minnkaði muninn niður í þrjú mörk með tveim síðustu mörkum hálfleiksins. Staðan 11-8 í hálfleik. Sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. Akureyri var ávallt með forystuna en KA náði að minnka muninn niður í tvö mörk en komust ekki nær þrátt fyrir aragrúa af fínum færum sem strönduðu undantekningarlítið á Arnar Þór Fylkissyni í marki Akureyrar.

Heimir Örn Árnason var markahæstur í liði KA með fimm mörk, Ólafur Jóhann Magnússon skoraði fjögur mörk, Sigþór Árni Heimisson þrjú mörk, Áki Egilsnes og Dagur Gautason tvö mörk hvor og þeir Andri Snær Stefánsson, Elfar Halldórsson, Hreinn Þór Hauksson og Sigþór Gunnar Jónsson skoruðu eitt mark hvor.

Í liði Akureyrar var Hafþór Már Vignisson markahæstur með sjö mörk, Brynjar Hólm Grétarsson og Igor Kopyshynskyi skoruðu fimm mörk, Arnór Þorri Þorsteinsson, Garðar Már Jónsson, Patrekur Stefánsson skoruðu tvö mörk hver og Karolis Stropus eitt mark.

Með sigrinum náði Akureyri þriggja stiga forystu á toppi deildarinnar með 23 stig en KA er í öðru sæti með 20 stig. 


Nýjast