Akureyri sækir Aftureldingu heim í kvöld

N1-deild karla í handknattleik heldur áfram í kvöld eftir stutt bikarhlé og eru þrír leikir á dagskrá. Akureyri leikur sinn þriðja útileik í röð er liðið sækir Aftureldingu heim í Mosfellsbæinn, FH og Fram mætast í Kaplakrika og Haukar fá Valsmenn í heimsókn. Staða efstu liða er þannig að Haukar eru á toppnum með 22 stig, FH hefur 21 stig í öðru sæti, HK nítján stig í þriðja sæti og Akureyri situr í fjórða sæti með átján stig. Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrar, segir næstu tvo leiki liðsins skipta miklu máli upp á framhaldið. „Við erum búnir að stilla þessu þannig upp að næstu tveir leikir eru upp á líf og dauða fyrir okkur, gegn Aftureldingu úti og HK hér heima. Eftir þessa tvo leiki getum við endurskoðað okkar markmið. Vonandi verðum komnir nær toppnum þá en ef annar þessara leikja tapast að þá erum við komnir á síðasta sjens með að komast í úrslitakeppnina,“ segir Heimir.

Nánar er rætt við Heimi og fjallað um N1-deildina í Vikudegi í dag.

Nýjast