Akureyri og Haukar mætast í kvöld í handboltanum

Akureyri tekur í kvöld á móti Haukum í stórleik umferðarinnar í N1-deildinni í handbolta. Leikurinn hefst kl.19:30 og fer fram í Höllinni.

Heimamenn hafa farið afar vel af stað í deildinni á þessu tímabili og eru efstir eftir 8 umferðir með 12 stig, Valsarar koma næstir í öðru sæti með 11.stig. Haukar sitja hins vegar í sjötta sæti deildarinnar með 6 stig.

Gestirnir hafa ollið gríðarlegum vonbrigðum í deildinni það sem af er en þeim var í haust spáð Íslandsmeistaratitlinum í árlegri spá þjálfara og forráðamanna hjá liðum deildarinnar. Haukarnir hafa á að skipa mjög öflugu liði og eru vafalítið best mannaða liðið í deildinni á pappírunum með tvo öfluga leikmenn í öllum stöðum.

Leikjaálag í evrópukeppninni hefur reynst Haukum erfitt það sem af er tímabili og voru þeir til að mynda að spila um sl. helgi í Úkraínu og eiga á fimmtudagsmorgun að ferðast til Ungverjalands. Fram hefur komið í fjölmiðlum að þeir óskuðu eftir frestun á leiknum sem fram fer í kvöld en Akureyri vildi eðlilega ekki verða við þeirri bón þar sem mikil spenna ríkir í bæjarbúum fyrir leikinn og vilja heimamenn nýta sér það. Einnig vill svo til að um er að ræða eina heimaleik Akureyrar í rúma tvo mánuði.

Ljóst er að þrátt fyrir að Haukar hafi ollið vonbrigðum þarf Akureyri að eiga algjöran toppleik í kvöld til að landa sigri því Haukaliðið er öflugasta lið landsins ef þeir spila sinn besta leik. Vert er að minnast þess að Haukar kjöldrógu Akureyri í fyrri leik liðanna í vetur sem fram fór í Hafnarfirði með 37 mörkum gegn 28.

Akureyringar þurfa því svo sannarlega á stuðningi áhorfenda að halda í kvöld og undir það tekur hinn mikli baráttujaxl Þorvaldur Þorvaldsson leikmaður Akureyrar:  „Það er búin að vera rosaleg stemming hjá okkur í Höllini á heimaleikjunum hingað til og liðin fyrir sunnan eru farin að tala stemminguna á pöllunum fyrir norðan. Við þurfum á miklum stuðningi að halda í leiknum gegn Haukum, við ætlum okkur sigur en þurfum toppleik til að það takist.”

Nýjast