Akureyri lagði HK að velli

Akureyri lagði HK að velli, 31-28, í Höllinni fyrir norðan í N1-deild karla í handknattleik í kvöld. HK var skrefinu framar í fyrri hálfleik og hafði tveggja marka forystu í hléi, 14-12, en Akureyringar stigu upp í seinni hálfleik og fögnuðu mikilvægum sigri. Sveinbjörn Pétursson varði sautján skot í marki Akureyrar í leiknum, þar af tólf í seinni hálfleik, og var maðurinn á bak við sigur norðanmanna. Einnig voru þeir Bjarni Fritszon og Geir Guðmundsson öflugir í sóknarleik Akureyrar; Bjarni skoraði níu mörk en Geir átta mörk. Bjarki Már Elísson skoraði átta mörk fyrir HK. Akureyri fer með sigrinum upp fyrir HK í þriðja sæti deildarinnar með 22 stig, en HK hefur 21 stig í fjórða sæti.

 

Jafnt var í tölum á upphafsmínútunum í Höllinni en HK tók að síga framúr fljótlega og náði fjögurra marka forystu, 8-4, þegar fyrri hálfleikurinn var tæplega hálfnaður. Arnór Freyr Stefánsson var að verja vel í marki HK en hann varði átta bolta fyrsta korterið. Akureyri minnkaði muninn í eitt mark, 8-9, en munurinn hélst í einu til tveimur mörkum næstu mínútur. HK jók muninn á ný og náði þriggja marka forystu, 13-10, þegar tvær og hálf mínúta voru til leikhlés en norðanmenn skoruðu síðasta markið í fyrri hálfleik. Staðan í leikhlé, 12-14, HK í vil.

HK-vörninni var hvað eftir annað fyrir skotum Akureyringa og riðluðu sóknarleik liðsins og Arnór Freyr var einnig öflugur í marki gestanna og varði ellefu skot í fyrri hálfleik.

Akureyri byrjaði seinni hálfleikinn vel og jafnaði metin í 15-15 og komust yfir, 16-15, í fyrsta skiptið í langan tíma. Sveinbjörn Pétursson í marki Akureyrar var hrokkinn í gang og kom vel stemmdur inn í leikinn úr leikhléi. Heimamenn náðu tveggja marka forystu, 17-15, þegar skammt var liðið á seinni hálfleikinn. Þá kom þrjú mörk í röð hjá HK sem breytti stöðunni í 18-17 sér í vil. Jafnt var í tölum næstu mínútur sem var í járnum.

Akureyri náði tveggja marka forystu, 21-19, þegar seinni hálfleikurinn var slétt hálfnaður. Þegar átta mínútur voru til leiksloka höfðu norðanmenn þriggja marka forystu, 24-21. Forysta norðanmanna var orðin fjögur mörk, 26-22, þegar fimm mínútur voru til leiksloka og útlitið gott fyrir heimamenn. HK-menn voru ekki hættir og minnkuðu muninn niður í tvö mörk, 27-25. Akureyringar hleyptu þeim hins vegar ekki nær og voru sterkari á lokasprettinum. Lokatölur, 31-28, og mikilvæg stig í hús hjá norðanmönnum en þetta var fyrsti sigur Akureyrar á HK í vetur í þremur leikjum.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 9 (3), Geir Guðmundsson 8, Heimir Örn Árnason 5, Guðmundur Hólmar Helgason 3, Bergvin Gíslason 2, Oddur Gretarsson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 2.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 17.

Mörk HK: Bjarki Már Elísson 8 (2), Tandri Már Konráðsson 6, Ólafur Bjarki Ragnarsson 3, Atli Ævar Ingólfsson 4, Bjarki Már Gunnarsson 1, Atli Karl Backmann 1, Leo Snær Pétursson 3. Vilhelm Gauti Bergsveinsson 1
Varin skot: Arnór Freyr Stefánsson 13,  Björn Ingi Friðþjófsson 4 (1).

Nýjast