Akureyri lá gegn FH í Höllinni
FH gerði góða ferð norður yfir heiðar er liðið lagði Akureyringa að velli með fjórum mörkum í Höllinni í kvöld í N1-deild karla í handbolta en lokatölur urðu 20-24. Akureyri byrjaði leikinn frábærlega og komst í 5-0 og FH-ingar skoruðu ekki mark fyrstu níu mínúturnar. Akureyri hélt forystunni til hálfleiks en eftir það hafði FH betur á öllum stöðum. Daniel Freyr Andrésson varði 23 skot í marki FH og var besti maður vallarins. Fyrsti sigur Íslandsmeistarana staðreynd og sigurinn fyllilega verðskuldaður.
Akureyri byrjaði leikinn frábærlega fyrir framan fjölmarga áhorfendur í Höllinni sem létu vel í sér heyra. Það gekk hreinlega allt upp hjá heimamönnum fyrstu mínúturnar og eftir sjö mínútna leik var staðan 5-0. Sveinbjörn Pétursson lokaði markinu og það skipti engu þótt FH fékk vítakast, Sveinbjörn tók það líka en hann varði sex skot á fyrstu tíu mínútu. Á sama tíma var markvarslan enginn hinu megin. Það tók FH-inga níu mínútur tæpar að skora fyrsta markið en það virtist vera það sem þurfti því eftir að ísinn var brotinn kom góður kafli hjá Hafnfirðingum. Daníel Freyr komst í gang í markinu og Baldvin Þorsteinsson dró vagninn í sókninni.
FH skoraði þrjú mörk í röð og breytti stöðunni í 5-3. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 6-4 fyrir heimamenn en þá hafði Akureyri ekki skorað í heilar níu mínútur eða síðan staðan var 5-1. FH tókst að jafna leikinn í fyrsta sinn í stöðunni 10-10 á 27. mínútu en norðanmenn leiddu með einu marki í hálfleik, 12-11.
FH byrjaði seinni hálfleikinn líkt og AKureyri byrjaði þann fyrri og komust gestirnir í fyrsta sinn yfir í leiknum í stöðunni 13-14 eftir 36. mínútna leik og síðan tveimur mörkum yfir 14-16 þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Mikill viðsúningur en svo virtist sem mesti vindur væri farinn úr heimamönnum eftir frábæra byrjun. FH náði þriggja marka forystu um miðjan seinni hálfleik, 15-18, og nú varð það Daníel Freyr sem lokaði markinu fyrir framan sterka vörn FH-inga og sama tíma lak allt inn hjá Sveinbirni hinu megin. Akureyringar misstu svo línumanninn Hörð Fannar Sigþórsson útaf um miðjan seinni hálfleikinn og það veikti liðið töluvert varnarlega. FH náði svo fjögurra marka forystu í stöðunni 15-19 og komst svo fimm mörkum yfir í stöðunni 16-21 þegar sjö mínútur voru eftir og hlutirnir litu vel út fyrir FH.
Þegar þrjár mínútur voru eftir skoraði Baldvin Þorsteinsson 24 mark FH og þar með var sigurinn í höfn. Tvö mikilvæg stig í hús hjá FH en það er ljóst að Akureyri þarf að þétta hópinn saman. Útliti er fyrir að Hörður Fannar Sigþórsson verði eitthvað frá vegna meiðsla og þá eru Heimir Örn Árnason fyrirliði og Daníel Einarsson fyrir á sjúkralistanum en norðanmenn söknuðu Heimis mikið í dag.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzon 5, Geir Guðmundsson 4, Oddur Gretarsson 4, Hörður Fannar Sigþórsson 4, Guðmundur Hólmar Helgason 2.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 14 skot.
Mörk FH: Baldvin Þorsteinsson 8 (1 úr víti) Örn Ingi Bjarkarson 5, Ragnar Jóhannsson 3, Ólafur Gústafsson 2, Atli Rúnar Steinþórssin 2, Andri Berg Haraldasson 2, Ari Magnús Þorgeirsson 1, Þorkell Magnússon 1.
Varin skot: Daníel Freyr Haraldsson 23.