Akureyri, „Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór?“
Einnar borgar landið Ísland
Það var Spilverk þjóðanna sem spurði Reykjavíkina okkar fyrir nokkrum áratugum titilspurningarinnar að ofan í samnefndu lagi. Frá því að Spilverkið spurði þessarar spurningar hefur byggðamynstur á Íslandi þróast á óvenjulegan máta. Tveir þriðjungshlutar tiltölulega fárra íbúa landsins eru saman þjappaðir í einu borgarsamfélagi á suðvesturhorninu. Önnur lönd sem fara nærri því að vera svona „einnar-borgar“ eru oftast byggð á litlum skikum þar sem borgarmörkin falla saman við landamærin. Af þessum ástæðum koma reglulega fram hugmyndir um að auka jafnvægi í vegasalti byggðar og lands með einhvers konar borgarvalkosti við höfuðborgarsvæðið, sem væri þá Akureyri af augljósum ástæðum. Þetta hefur einhvern veginn oftast verið meira í orði en á borði, en fyrir skemmstu var sett af stað átaksverkefni ráðuneytis um framtíð Akureyrar. Meðal annars gert til skilgreiningar á „meginkjarna landshluta“ og „svæðisbundnu hlutverki“. Umræða um eflingu Akureyrar hefur hins vegar átt það til að þvælast fljótt í karp um hugtökin, „bæi“ eða „borgir“ með þeim afleiðingum að áform um markmið og aðgerðir gufa upp áður en yfir lýkur. Til eru viðmið af ýmsu tagi um borgir, þ.á.m. skilgreining OECD fyrir Evrópuborgir út frá ýmsum eðlisþáttum byggðar sem og íbúafjölda (50 þús. að lágmarki). Í Bretlandi var reyndar löngum gengið út frá því að bærilega myndarleg dómkirkja dygði til þess að Englandsdrottning viðurkenndi þéttbýlisstað sem borg. En öll þessi mörk eru túlkanleg með ólíkum hætti og er raunin sú að algildar alþjóðlegar skilgreiningar á því hvað greinir litlar borgir frá stórum bæjum eru ekki til.
Íbúafjölgunin
Íbúum á Akureyri hefur ekki fjölgað hratt. Á undanförnum árum oft í kringum 0,5-0,7% á ári, sem hefur ekki haldið í við 2-3% árlega íbúafjölgun höfuðborgarsvæðisins. Íbúum á Akureyri þarf að fjölga verulega hraðar ef markmiðið er að vera einhvers konar valkostur við höfuðborgarsvæðið. Myndun borgarsamfélags utan Reykjavíkur mun nefnilega ólíklega gerast að sjálfu sér að óbreyttum aðstæðum. Slík borg mun t.a.m. ekki geta byggst á því að færa til íbúa þorpa, sveita og bæja landsbyggðanna í ofurhægum skrefum inn á íbúatal einnar landsbyggðarborgar. Sú auðlind þverr fljótt þannig, auk þess sem svæðisbundin íbúahliðrun af því tagi skapar dýpri vandamál á öðrum endum en hún leysir á hinum. Það skapar heldur ekki undirstöðu borgarsamfélaga að skrapa saman umfangslítilli héraðsumsýslu á eitt miðlægt höfuðból í hverjum landsfjórðungi. Þróun alvöru borgarsamfélags þarf að byggjast á nýjum íbúum utan frá, með nýjar hugmyndir og nýja fjárfestingu í farteskinu. Umfram allt líka miðlægum hlutverkum á lands- og alþjóðavísu, ekki einvörðungu svæðisbundinni þjónustu við einn landshluta. Kjarni málsins er sá að ef undanskilin er sérhæfð svæðisþjónusta sjúkrahúsa og sambærilegra innviða, þá liggur ávinningur nærhéraða borga og stórra þéttbýlisstaða lang mest í því sem einfaldlega hlýst sjálfsprottið af mannfjöldanum sjálfum sem slíkum. Þ.e. þeim þáttum atvinnulífs og samfélags sem drifnir eru áfram af nægilega stóru íbúamengi þéttbýlisins sem sótt er, t.d. sérverslun og menningar- og listalífi. Það aukast einfaldlega búsetugæði í þéttbýlinu á Húsavík, sveit í Svarfaðardal og þorpinu á Hofsósi með því að hægt sé að sækja eftir þörfum af og til í alþjóðlegt borgarsamfélag á stærri skala á Akureyri.
Sjálfstæð sóknaráætlun Akureyrar?
Það þarf að koma til sjálfstæð opinber borgarstefna og líka sjálfstæð sóknaráætlun fyrir þéttbýlisstaðinn Akureyri, sé það raunverulegt markmið að þróa annan borgarvalkost fyrir Ísland. Hún þarf að ná til langs tíma, 20-30 ára eða lengur, og vera vörðuð aðgerðum alla leið. Smíði alþjóðlegrar menningarborgar á ekki að fara fram sem einhvers konar hjáverk í svæðisbundnum sóknaráætlunum til skammtíma í stökum landshlutasamtökum á Norðausturlandi. Þetta er auðvelt að útfæra með hliðsjón af því sem nú þegar er gert með „höfuðborgarstefnu“ og sérstakri sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið. Markmið í slíkri stefnu gæti t.d. verið að íbúum Akureyrar fjölgi um 3% á ári og íbúafjöldi tvöfaldist þannig á tuttugu árum? Slíkt myndi útheimta veigamiklar aðgerðir bæði inn á við og í stærri fjárfestingum á landsvísu. Mögulega gætu vörður á slíkri leið verið ákvörðun um jarðgöng milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar til að tryggja landsamgöngur borgar til beggja átta með áreiðanlegri hætti? Og að fá ríkisvaldið til að reisa myndarlega nýbyggingu Stjórnarráðs Íslands á Akureyri? Slík bygging gæti hýst mikinn fjölda starfa, og til dæmis ákveðnar deildir eða skrifstofur ráðuneytanna og starfað svo samhliða hinum stóra klasa ráðuneyta sem áfram verður væntanlega við Arnarhól. Vörðurnar á heimavelli myndu þá væntanlega snúa að framsýnu borgarskipulagi mannlífs- og athafnasvæða, samgangna og miðbæjar út frá mikið breyttum íbúafjölda og á pari við það sem best er gert í menningarborgum nágrannalanda okkar. (Og ekki gleyma að tryggja almenningssamgöngur til og frá flugvelli, þær eru sjálfgefnar í borgum).
Þegar upp er staðið skipta hugtökin um borg og bæ minnstu máli. Og fáeinar þúsundir íbúa til eða frá til að falla að einhverjum evrópskum stöðlum ekki heldur. Það sem máli skiptir er að hafa þor til að hugsa nægilega stórt og langt ef á annað borð á að máta sig á mælikvarða borgarsamfélaga. Smíða svo framtíðarspilverk Akureyrar sem borgarvalkosts á Íslandi í gegnum sjálfstæða og fjármagnaða sóknaráætlun til næstu áratuga. Setja skýr markmið og ígrunda vel vörðurnar á leið að þeim. Takist þetta hafa allir hag af. Akureyringar sjálfir auðvitað, og þjóðarskútan öll. En þó ekki síst nágrannarnir.
Óli Halldórsson
Höfundur býr og starfar á Húsavík og hefur undanfarin ár unnið á pólitískum vettvangi fyrir VG á Norðausturlandi