Á FSA hefur verið tekin ákvörðun um að loka dagdeildinni um næstu mánaðamót og sameina reksturinn göngudeild geðdeildar næsta haust. Sigursteinn Másson varaformaður Geðhjálpar sagði að fram hefði komið á fundinum með forsvarsmönnum FSA, að nú væri verið að endurskoða þessar sparnarhugmyndir og að frétta af þeirri vinnu væri að vænta fljótlega. "Það voru engin loforð gefin um að hætta við þá ákvörðun að loka dagdeildinni og síðar sameiningunni við göngudeild. Við lögðum hins vegar áherslu á að ekki yrði rof á þjónustunni við fólkið."
Sigursteinn sagði mjög mikilvægt að fólk fengi áfram að njóta góðrar þjónustu, líkt og veitt hefur verið á dagdeildinni. "Það er ekki okkar að meta á þessu stigi í hvaða formi sú þjónusta á að vera eða hver á að veita hana. Við lítum á að það sé úrlausnarefni framkvæmdastjórnar FSA annars vegar og bæjaryfirvalda hins vegar að finna lausn á því hvernig t.d. þeir 10 einstaklingar sem eiga að fá þjónustu á dagdeildinni í febrúar, fái hana. Það er skylda sjúkrahússins samkvæmt heilbrigðislögum að sú þjónustu falli ekki niður en það kom fram á fundi með bæjarstjóra að það er ríkur vilji fyrir því hjá bænum að vinna að lausn málsins með sjúkrahúsinu."
Sigursteinn sagði að ekki væri verið að gagnrýna bæjaryfirvöld á Akureyri, þau væru þvert á móti að sýna ríkan vilja til þess að leysa þetta mál. "Þegar í boði er góð þjónusta á vegum bæjarins, vill það stundum verða þannig að ríkið reyni að velta sínum skyldum yfir."