Akureyri fjarlægist úrslitakeppnina

Akureyri Handboltafélag beið í kvöld lægri hlut fyrir Stjörnunni 26-29 í N1deild karla í handbolta og hafa möguleikar liðsins á sæti í úrslitakeppninni beðið verulega hnekki því á sama tíma sigraði HK sinn leik og er Akureyri því orðið fjórum stigum á eftir HK sem er í þriðja sæti og þremur stigum á eftir Fram sem er í fjórða sæti. Öllu verra mál fyrir Akureyri hins vegar er að liðið er nú einungis þremur stigum á undan Stjörnunni sem situr í sjöunda sæti, því næst neðsta.

Leikurinn gegn Stjörnunni í kvöld var jafn lengst um en slæmur kafli um miðbik seinni hálfleiks þar sem Stjarnan skoraði fimm mörk í röð og breytti stöðunni úr 23-22 fyrir Akureyri í 27-23 sér í vil gerði útslagið því gestirnir náðu aldrei að brúa það bil.

Tapið er gríðarlega gremjulegt fyrir Akureyri því liðið hafði alla burði til að vinna þennan leik. En í stað þess að gera það er liðið nú í þeirri stöðu að eiga takmarkaða möguleika á því að láta drauminn um sæti í úrslitakeppni rætast.

Næsti leikur Akureyrar er á föstudagskvöldið kl.18:00 í Höllinni gegn Haukum og er óhætt að hvetja fólk til að mæta á þann leik því með sigri aukast líkurnar á sæti í úrslitakeppninni á ný.

Nýjast