Akureyrarliðin í eldlínunni í kvöld

Akureyrarliðin, Þór, KA og Þór/KA verða öll að spila í kvöld á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Á Þórsvellinum tekur Þór á móti Víkingi R. er liðin eigast við í 15. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Aðeins þrjú stig skilja liðin af fyrir leikinn, Þór er í 9. sæti deildarinnar með 18 stig en Víkingur R. vermir 5. sætið með 21 stig. Víkingur Pálmason og Einar Sigþórsson hjá Þór verða báðir í banni í leiknum í kvöld. Leikurinn hefst kl. 18:30 og er sem fyrr segir á Þórsvellinum.

KA sækir Fjarðabyggð heim á Eskifjörð í deild karla í kvöld. Nokkra lykilmenn vantar í lið KA fyrir leikinn en þeir Dean Martin og David Disztl verða í banni í kvöld og Norbert Farkas verður að öllum líkindum frá vegna meiðsla það sem eftir er tímabilsins. Það er ljóst að þetta er stórt skarð í lið KA sem þarf nauðsynlega á þremur stigum að halda í kvöld, ætli liðið sér að eiga möguleika á úrvalsdeildarsæti á næsta ári. Fyrir leikinn í kvöld er KA í 6. sæti deildarinnar með 20 stig en Fjarðabyggð hefur 23 stig í 4. sæti deildarinnar. Leikurinn hefst kl. 19:00 á Eskifjarðarvelli.

Þórs/KA stúlkur eiga erfiðan útileik fyrir höndum í kvöld er liðið sækir Val heim á Vodafonevöllinn í Pepsi- deild kvenna. Valsstúlkur tróna á toppi deildarinnar með 32 stig ásamt liði Breiðabliks. Þór/KA hefur 26 stig í 4. sætinu og gæti með góðum úrslitum í kvöld blandað sér verulega í toppbaráttu deildarinnar. Leikurinn hefst kl. 19:15.

Nýjast