Akureyrarhöfn sú þriðja besta í Evrópu

Akureyrarhöfn er þriðja besta höfnin í Evrópu, samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var meðal farþega skemmtiferðaskipa í eigu Princess Cruises um þjónustu í höfnum. Fyrirtækið á 18 skemmtiferðaskip, öll eru þau stór og glæsileg og bera seinna nafnið Princess. Alls voru 34 Evrópuhafnir nefndar til sögunnar í könnuninni og aðeins hafnirnar í Geirangri og Flåm í Noregi fengu betri útkomu en Akureyrarhöfn.  

Þetta er mikil viðurkenning fyrir Akureyri og ekki síður fyrir starfsfólk Hafnasamlags Norðurlands, sem hefur unnið ötullega að því að fjölga skipakomum til bæjarins, sem og að taka vel á móti þeim gestum sem hingað koma. Einnig er þetta mikil viðurkenning fyrir aðra þjónustuaðila á svæðinu sem að málum koma. Bruce Krumrine aðstoðarforstjóri ferðasviðs Princess Cruises sagði í samtali við Vikudag, að helsta ástæða fyrir þessari góðu niðurstöðu, væri hversu hlýjar og góðar móttökur farþegar skemmtiferðaskipanna fengju frá íbúum Akureyrar. Einnig nefndi hann úrval góðra ferðaþjónustuaðila og fallegt umhverfi, ekki síst frá náttúrunnar hendi.

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri segir að árangur Akureyrarhafnar í könnuninni sé alveg stórkostlegur. "Þetta eru alveg ótrúlega gleðilegar fréttir og sýnir það að hér hefur verið unnið alveg þrotlaust starf við að koma þessari höfn á kortið og bjóða upp á góða þjónustu við þessi skip, þótt það hafi ekki farið mjög hátt. Það er að skila þessum árangri og starfsmenn hafnarinnar eru að uppskera eins og þeir hafa sáð."

Fjölmargir þjónustuaðilar vinna að því að taka vel á móti farþegum skemmtiferðaskipanna. Smári Ólafsson leigubílstjóri á Akureyri segir að komur skemmtiferðaskipa til bæjarins skipti miklu máli fyrir leigubílstjóra, enda hafi þeim farþegum verið að fjölga sem nýti sér þjónustu þeirra. Pétur Ólafsson skrifstofustjóri Hafnasamlags Norðurlands, segir að þessi jákvæða niðurstaða styrki menn enn frekar í trúnni um að þeir séu með góða vöru í höndunum. "Það er auðvelt fyrir skip að koma til Akureyrar, innsiglingin inn fjörðin er falleg og náttúruperlur á alla kanta." Pétur segir að markvisst hafi verið unnið að því undanfarin ár að bæta aðstöðu skemmtiferðaskipa á Akureyri, m.a. lengja bryggjur og dýpka höfnina. Bergþór Erlingsson markaðsstjóri SBA - Norðurleiðar segir að starfsmenn Akureyrarhafnar hafi unnið ötullega að því að markaðssetja höfnina og að það hafi skilað sér vel.

Gunnar Rafn Birgisson framkvæmdastjóri Atlantik segir að niðurstaða skoðanakönnunarinnar um borð í skipum Princess Cruises varðandi Akureyrarhöfn, sé mjög ánægjuleg fyrir alla þá sem að málum koma. "Við höfum verið að vinna með Princess Cruises til fjölda ára og átt með þeim mjög gott samstarf.  Þetta er árangur sem byggist á góðu samstarfi allra aðila og metnaði en verður ekki til á einum degi."  Gunnar segir að þjónusta út frá Reykjavík hafi einnig fengið góða niðurstöðu í könnuninni og það sé líka mjög jákvætt.

Varðandi frekari vöxt í þessari atvinnugrein hér á landi, segir Gunnar að ekki væri hægt að taka endalaust við skipum og fólki en eftir því sem aðstaðan batnar aukast möguleikarnir. "Við getum enn gert betur og að því er stefnt." Atlantik hefur einnig verið í viðskiptum við önnur erlend skipafélög á síðustu 30 árum þar sem kannanir á gæðum þjónustu eru framkvæmdar og segir Gunnar að fyrirtækið hafi verið að fá jákvæð viðbrögð frá fleiri farþegum en þeim sem sigla með Princess Cruises. "Þegar skip kemur, er verið að nýta þjónustu í landi og þegar skip fer, er búið að gefa rútubílsstjórum, leiðsögufólki, veitingastöðum og fleiri þjónusuaðilum einkun. Upplýsingum er komið til okkar og við reynum að taka tillit til ábendinga þegar við erum að þróa þjónustuna áfram. "Hér á landi hafa menn lang oftast verið að standa sig vel og þá sér í lagi á Norðurlandi."

Nýjast