Akureyrarbær styður við rekstur atvinnuleikhúss í bænum

Eiríkur Björn Björgvinsson og Sigrún Björk Jakobsdóttir undirrituðu samninginn.
Eiríkur Björn Björgvinsson og Sigrún Björk Jakobsdóttir undirrituðu samninginn.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri og Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður stjórnar Leikfélags Akureyrar undirrituðu í dag samning um stuðning Akureyrarbæjar við rekstur atvinnuleikhúss á Akureyri fyrir starfsárið 2011-2012.

Markmið samningsins er að tryggja rekstur atvinnuleikhúss á Akureyri á því leikári sem nú er að hefjast, í samræmi við markmið Akureyrarbæjar og menntamálaráðuneytisins um að Akureyri verði þungamiðja öflugs menningarstarfs, með möguleikum til aukinnar atvinnumennsku á listasviði. Jafnframt er markmið samningsins að samningsaðilar finni leikhúsinu sameiginlega rekstrarform sem tryggi festu í rekstri þess og markvissa stjórnunarhætti. Leikfélag Akureyrar hefur átt í rekstrarvanda og liggur fyrir samkomulag um að Akureyrarbær láni félaginu allt að 30 milljónir króna af væntanlegu framlagi almanaksársins 2012. Ekki verður um frekari greiðslur bæjarins til félagsins á samningstímabilinu að ræða. Framlög Akureyrarbæjar til LA á næsta ári eru með fyrirvara um óbreytt framlag menntamálaráðuneytisins til menningarsamnings við Akureyrarbæ.

Stuðningur Akureyrarbæjar við LA er tvíþættur. Annars vegar árlegt framlag til reksturs atvinnuleikhússins á samningstímanum og hins vegar styrkur til greiðslu á húsaleigu vegna þess húsnæði sem LA hefur á leigu frá Fasteignum Akureyrar. Í heild verða framlög til rekstrar á árinu 2011 um 92,5 milljónir króna og ná til seinni hluta leikársins 2010-2011 og fyrri hluta þess leikárs sem samningurinn tekur til. Áætlað framlag frá 1. janúar-31. júní á næsta ári er tæpar 54 milljónir króna. Framlögin eru með fyrirvara  um fjárveitingar úr bæjarsjóði samkvæmt fjárhagsáætlun næsta árs og áframhaldandi framlög ríkissjóðs.

Nýjast