Akureyrarbær og KEA styrkja Skákfélag Akureyrar

Skákfélag Akureyrar fagnar í dag 90 ára afmæli félagsins en það var stofnað 10. febrúar 1919.  Ýmislegt verður gert til hátíðarbrigða vegna þessara tímamóta. Í dag klukkan 17.00 verður opið hús í skákmiðstöð félagsins í suðurenda Íþróttahallarinnar. Þangað eru allir velunnarar og áhugafólk velkomnir í afmæliskaffi, til að taka skák, spjalla um daginn og veginn og kynna sér starf félagsins.  
 

Í tilefni dagsins munu Skákfélag Akureyrar og Akureyrarbær gera með sér samning um skákþjálfun barna og unglinga, undir heitinu „Æskan að tafli".  Í samningunum felst að Skákfélagið mun sjá um skákþjálfun barna og unglinga á Akureyri og bæjarfélagið útvega félaginu nauðsynlega aðstöðu og rekstrarstyrk.  KEA kemur einnig að verkefninu „Æskan að tafli" með myndarlegum styrk og félagið vonast eftir að fleiri styrktaraðilar bætist í hópinn á afmælisárinu.      

Undir merki Æskunnar að tafli mun Skákfélagið leggja áherslu á að grunnskólanemendur á Akureyri fái að kynnast skáklistinni og gefist kostur á að þjálfa hæfileika sína á skáksviðinu.  Félagið mun leggja áherslu á þjálfun fyrir jafnt skemmra sem lengra komna og auðvelda þeim iðkendum sem skara fram úr að reyna sig við jafnaldra sína annarsstaðar á landinu.  Markmiðið er að Akureyringar eigi áfram Íslandsmeistara í barna- og unglingaflokkum og geti sent sigurstranglegar sveitir til keppni á Íslandsmóti grunnskólasveita.

Félagið hefur lengi haldið uppi öflugu barna- og unglingastarfi og eignaðist á síðasta ári tvo Íslandsmeistara, Mikael Jóhann Karlsson sem varð Íslandsmeistari í skólaskák, yngri flokki, og Jón Kristinn Þorgeirsson í flokki 10 ára og yngri. Báðir þessir piltar eru nú staddir í Færeyjum, þar sem þeir taka þátt í Norðurlandamótinu í skólaskák fyrir Íslands hönd.  

Nýjast