Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í síðustu viku voru samþykktar samhljóða þrjár ályktanir er lúta að tekju- og kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Fjallað var um þann kostnað sem fallið hefur á Akureyrarbæ vegna rekstrar Öldrunarheimila Akureyrarbæjar á síðustu árum en ríkinu ber að standa straum af.
Þá var athygli stjórnvalda vakin á því að ekki hefur verið gengið frá samningi um öryggisvistun fyrir árið 2017 og loks samþykkt ályktun um mikilvægi þess að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga verði tekin til gagngerrar endurskoðunar.
Akureyrarbær hefur á s.l. fimm árum greitt með rekstri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar 843 milljónir króna og felur bæjarstjórn bæjarstjóra og bæjarlögmanni að leita réttar sveitarfélagsins til greiðslu á þeim kostnaði sem fallið hefur á sveitarfélagið vegna rekstursins. „Það er ófrávíkjanleg krafa að ríkið standi undir greiðslum vegna þeirrar þjónustu sem það ber ábyrgð á samkvæmt lögum,“ segir í bókun.