Sigurður höfðaði mál gegn Akureyrarbæ og krafðist þess að bærinn yrði dæmdur til að greiða sér rúmar 3,4 milljónir króna í skaðabætur og 1,2 milljónir króna í miskabætur. Dómurinn féllst á það með Sigurði að Akureyrarbær hafi með ólögmætum hætti rift ráðningarsamningi aðila.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 11. febrúar 2009 í máli
nr. E-341/2008:
Sigurður Lárus Sigurðsson
(Guðni Ásþór Haraldsson hrl.)
gegn
Akureyrarkaupstað
(Inga Þöll Þórgnýsdóttir hdl.)
Mál þetta, sem var dómtekið 17. desember sl., höfðaði Sigurður Lárus Sigurðsson, Einihlíð 13, Hafnarfirði, hér fyrir dómi þann 29. maí sl. gegn Akureyrarkaupstað.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.413.161 krónu í skaðabætur og 1.200.000 krónur í miskabætur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. júní 2008 til greiðsludags og málskostnað.
Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda eða kröfur hans verði lækkaðar verulega og málskostnaðar að skaðlausu.
Frávísunarkröfu stefnda var hrundið með úrskurði upp kveðnum 10. nóvember sl.
I.
Stefnandi er slökkviliðsmaður. Hann starfaði hjá slökkviliði stefnda frá maí 1997 til 22. apríl 2005, en þá var gerður við hann samningur um starfslok. Er staðhæft af stefnda að veturinn 2004-2005 hafi samskipti stefnanda og þáverandi slökkviliðsstjóra verið erfið og hafi borið á ósætti milli þeirra. Hafi bæjarstjóri leitað sátta og þeim umleitunum lokið með samningnum.
Stefnandi réð sig til slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í september 2005. Hinn 13. febrúar 2007 voru auglýst laus störf við slökkvilið stefnda. Stefnandi sótti um starf og fékk bréflega tilkynningu 15. mars 2007 um að ákveðið hefði verið að ráða hann og þrjá aðra umsækjendur. Segir stefnandi að nokkru áður hafi slökkviliðsstjóri stefnda hringt til sín og tjáð honum að umsókn hans hefði verið samþykkt. Hafi hann þá sagt upp störfum hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Fyrir liggur að það gerði hann með bréfi dagsettu 28. febrúar 2007.
Hinn 17. mars 2007 keypti stefnandi fasteign á Akureyri ásamt fjölskyldu sinni. Jafnframt seldu hann og eiginkona hans fasteign sem þau höfðu átt í Hafnarfirði. Kveður stefnandi þau hafa flutt búslóð sína norður í byrjun apríl 2007.
Stefnandi kveðst hafa heyrt orðróm þess efnis í byrjun maí 2007 að ekki væri allt á hreinu með ráðningu hans. Hann hafi því rætt við yfirmann sinn í Reykjavík og tjáð honum að hann þyrði ekki annað en að draga uppsögn sína til baka uns annað kæmi á daginn. Kveðst hann síðan hafa haft samband við Þórarin B. Jónsson varabæjarfulltrúa og beðið hann að kanna hvort ekki væri allt eins og um hefði verið samið. Hinn 10. maí hafi Þórarinn hringt til sín, eftir að hafa talað við bæjarstjóra og tjáð sér að svo væri. Kveðst stefnandi þá hafa hringt til slökkviliðsstjóra og staðfest við hann að hann kæmi til starfa klukkan 19:30 þann 11. maí. Slökkviliðsstjórinn hafi verið fámáll og sagst vita að stefnandi hefði dregið uppsögn sína hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins til baka. Þá hefði ekki náðst í stefnanda næst liðna daga. Þá hafi komið fram í samtalinu að slökkviliðsstjóri teldi stefnanda vera fortíðardraug og að hann reiknaði ekki með honum til vinnu daginn eftir. Stefnandi hafi lýst óánægju með þessa framvindu og hafi símtalinu lokið þannig.
Hinn 16. maí 2007 sendi slökkviliðsstjóri stefnda stefnanda bréf þar sem kemur fram að ákveðið hafi verið í samráði við stefnanda og aðstoðarslökkviliðsstjóra að stefnandi kæmi til starfa inn á næturvaktir þann 11. maí 2007. Í lok apríl 2007 hafi hann fengið upplýsingar í gegnum þriðja aðila að stefnandi væri hættur við að koma til starfa. Er síðan vísað til símtals við stefnanda sem hafi átt sér stað í framhaldi af þessu. Hafi stefnandi þar staðfest að áhugi hans á starfinu væri dvínandi. Hafi samtalinu lokið með ósk um að stefnandi léti vita 30. apríl hvort hann kæmi til starfa eða ekki. Stefnandi tekur fram að hann kannist ekki við þetta. Síðan segir í bréfinu að staðfesting hafi fengist á því að stefnandi hefði dregið uppsögn sína í Reykjavík til baka. Er þess síðan farið á leit við stefnanda að hann tilkynni bréflega að hann afþakki starfið.
Stefnandi kveðst hafa átt fund með slökkviliðsstjóra og aðstoðarslökkviliðsstjóra og Þórarni B. Jónssyni 23. maí 2007. Kveðst stefnandi hafa lýst óánægju sinni á fundinum. Slökkviliðsstjóri hafi oftsinnis talað um að stefnandi væri „fortíðardraugur" sem hann vildi ekki vekja upp. Aðspurður hafi hann neitað því að stefnandi fengi að koma til starfa. Kveður stefnandi þessum málalokum ekki hafa orðið hnikað þrátt fyrir fyrirspurnir til bæjaryfirvalda. Hafi hann átt þann kost einan að selja húsið fyrir norðan og flytja til Reykjavíkur á ný. Eiginkona hans hafi búið lengur á Akureyri og hafi fjölskyldan verið sundruð frá 1. júní 2007 til 15. janúar 2008.
Stefnda var ritað bréf 27. nóvember 2007 þess efnis að stefnandi hygðist leita réttar síns fyrir dómstólum. Í svari stefnda kemur fram að til hafi staðið að ráða stefnanda til 6 mánaða. Kemur þar einnig fram, eftir að atvik hafa verið rakin af hálfu stefnda, að ekki hafi verið annað að skilja en að stefnandi hefði hætt við að koma til starfa. Sé því rangt að ráðningarsamningi hafi verið rift af hálfu stefnda.
II.
Stefndi lýsir málsatvikum þannig að slökkviliðsstjóri hafi leitað sérstaklega eftir heimild hjá yfirmönnum sínum til að fallast á umsókn stefnanda. Hafi hún fengist með því fororði að ræða þyrfti sérstaklega við hann að búið væri að grafa gamlar „væringar" og að ekki kæmi til greina að upphefja á ný þau erfiðu samskipti sem urðu tilefni fyrri starfsloka stefnanda. Hafi slökkviliðsstjóri rætt þetta sérstaklega við stefnanda, m.a. að hann ætti ekki rétt til varðstjórastöðu strax. Hafi stefnandi tekið þessu vel og virst vera til í nýtt upphaf hjá liðinu. Hafi því verið ákveðið að gefa honum tækifæri. Honum hafi verið tilkynnt með bréfinu 15. mars 2007 að ákveðið hefði verið að ráða hann sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamann með sex mánaða tímabundinni ráðningu, en framtíðarráðning yrði metin í starfsmannasamtali undir lok hinnar tímabundnu. Ganga hafi átt frá ráðningarsamningi er stefnandi kæmi til starfa, sem hafi verið umtalað í samræmi við ósk hans að yrði 11. maí 2007.
Í aprílmánuði 2007 hafi verið auglýstar stöður varðstjóra og aðstoðarvarðstjóra innan slökkviliðsins. Hafi þar komið til greina þeir sem hefðu starfað í liðinu til margra ára og þegar gegnt varðstjórastöðu til reynslu. Stuttu eftir þetta hafi stefnandi rætt við slökkviliðsstjóra að hann ætti rétt til slíkrar stöðu, en verið tjáð að hann hefði verið ráðinn sem almennur liðsmaður til sex mánaða og til greina kæmu aðeins þeir sem þegar væru við störf í liðinu. Hafi stefnandi virst sáttur við þessar skýringar. Slökkviliðsstjóri hafi síðan hitt eiginkonu hans í Reykjavík í lok aprílmánaðar og spurt hvort þau hlökkuðu ekki til að koma norður, en því verið svarað að hann hefði svikið stefnanda um varðstjórastöðu og þau kæmu því ekki norður. Slökkviliðsstjóri hafi þá hringt til stefnanda og þar komið fram að áhugi hans hefði dvínað. Hafi hann þá beðið stefnanda að láta sig vita fyrir 30. apríl 2007 ef hann ætlaði ekki að koma til starfa. Stefnandi hafi sagst þurfa að kanna málið betur og myndi hafa samband. Ekkert hafi frá honum heyrst. Þann 8. maí hafi aðstoðarslökkviliðsstjóri sent honum textaskilaboð í farsíma og spurt hvort hann kæmi ekki á vakt 11. maí. Ekki hafi borist svar. Þá hafi verið reynt að hringja í þennan farsíma án árangurs, bæði þennan dag og daginn eftir. Þá hafi verið haft samband við aðstoðarslökkviliðsstjórann á höfuðborgarsvæðinu, sem hafi staðfest að stefnandi hefði dregið uppsögn sína þar til baka.
Stefndi kveður að ekki hafi verið annað af þessu að skilja en að stefnandi væri hættur við að koma til starfa. Hafi þá verið gengið í að manna vaktina 11. maí 2007. Þann 10. maí hafi stefnandi haft samband við slökkviliðsstjóra. Hafi það símtal staðfest þann grun að hann væri hættur við að koma til starfa. Hann hafi ekki mætt á hina fyrirhuguðu næturvakt 11. maí og því hafi ekki orðið af því að gerður yrði við hann ráðningarsamningur. Stefnanda hafi síðan verið ritað fyrrgreint bréf 16. maí 2007, en hann ekki svarað því, en óskað eftir fundi með slökkviliðsstjóra í júní 2007, sem hann hafi komið til ásamt Þórarni B. Jónssyni varabæjarfulltrúa. Þar hafi stefnandi sagt að hann hefði fengið grunsemdir um að hann væri ekki velkominn í liðið og viljað kanna þær. Slökkviliðsstjóri hafi bent á að óeðlilegt væri að þetta hefði hann ekki borið undir sig, sem hefði getað blásið á allar sögusagnir þessa efnis. Það að ekki hefði náðst í hann dögum saman væri litið á sem alvarlegan trúnaðarbrest, auk þess sem inn hefðu verið dregin fortíðarmál, sem ekki hefði komið til greina að fylgdu ráðningu hans.
III.
Stefnandi byggir á því að slökkvilið stefnda sé stjórnsýslustofnun, sem sé rekin á kostnað og ábyrgð stefnda, sbr. 10. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir. Sé um að ræða stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi komist á gildur ótímabundinn ráðningarsamningur, þar sem stefnandi skyldi starfa sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá stefnda. Kveðst stefnandi hafna því að hann hafi aðeins verið ráðinn til reynslu í 6 mánuði, enda eigi það ákvæði við þá sem ekki hafi áður verið við störf hjá stefnda. Hafi stefnandi starfað hjá stefnda á tímabilinu 1997-2005. Því hafi hann ekki verið ráðinn til reynslu eins og þeir sem ekki höfðu starfað áður hjá stefnda. Þá kveðst hann byggja á því að miðað við reynslu sína hafi hann mátt reikna með áframhaldandi ráðningu, eins og reyndin hafi orðið með þá sem hafi verið ráðnir samhliða honum. Um hafi verið samið að hann kæmi til starfa 11. maí 2007. Hafi ákvörðun stefnda, um að neita að taka við vinnuframlagi hans og neita að ganga endanlega frá ráðningunni eins og um hafi verið samið, verið ólögmæt. Hana hafi stefndi byggt á sögusögnum og ályktunum en ekki beinni ákvörðun stefnanda, sem aldrei hafi tilkynnt að hann hygðist ekki koma til starfa, heldur miðað allar aðgerðir sínar og fjölskyldu sinnar við það að hann væri ráðinn hjá stefnda. Þannig hafi stefndi ekki mátt gefa sér að stefnandi væri hættur við að koma til starfs, en borið að rannsaka það til fulls hvort svo væri. Það hafi stefndi ekki gert og þannig brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi honum að sama skapi borið að veita stefnanda andmælarétt áður en gripið yrði til svo íþyngjandi ákvörðunar, sbr. reglu 13. gr. sömu laga.
Stefnandi kveðst mótmæla því að það að hann dró uppsögn sína hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins til baka hafi jafngilt því að hann væri hættur við að taka starfi hjá stefnda. Hafi hann gripið til þessa þegar upp hafi komið orðrómur um að staða hans fyrir norðan væri ótrygg. Hafi stefndi ekki mátt byggja ákvörðun á þessum upplýsingum án þess að kanna afstöðu stefnanda sjálfs.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi hafi með gjörðum sínum á ólögmætan hátt rift einhliða gildum og gagnkvæmum ráðningarsamningi, sem hafi komist á milli aðila og eigi hann því með vísan til almennu skaðabótareglunnar að bæta stefnanda allt það tjón sem hann hafi orðið fyrir. Fyrir liggi að stefnandi hafi selt eign sína fyrir sunnan og keypt sér aðra á Akureyri. Þar sem enga vinnu hafi verið að fá fyrir hann sem slökkviliðsmann hafi hann neyðst til að selja aftur með tilheyrandi kostnaði. Ómæld vinna hafi verið lögð í að skoða eignir, rýma þær, flytja búslóð fjölskyldu sinnar og föður síns og skipuleggja nýtt heimili, auk kostnaðar við ferðir og uppihald.
IV.
Stefndi byggir á því að aldrei hafi verið gengið frá skriflegum samningi um ráðningu stefnanda, sem hafi átt að vera til sex mánaða, en meta hafi átt framtíðarráðningu að undangengnu starfsmannasamtali undir lok þess tímabils. Hafi því ekki komist á bindandi samningur sem geti verið grundvöllur að bótaábyrgð stefnda, en verði svo talið, geti tímabundið ráðningarsamband til sex mánaða ekki orðið grundvöllur að því að stefndi eigi að bæta stefnanda tjón vegna ráðstafana hans, m.a. í fasteignaviðskiptum.
Stefndi kveðst mótmæla því að slökkviliðsstjóri hafi bundið enda á fyrirhugaða ráðningu í símtali 10. maí 2007. Stefnandi hafi hins vegar vanefnt skyldu í gagnkvæmu samningssambandi með því að tilkynna stefnda ekki að hann hefði dregið til baka uppsögn sína hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Verði að telja þessa vanefnd verulega.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi að eigin ákvörðun ekki mætt til starfa þegar honum hafi verið það skylt. Séu skilyrði skaðabótaréttar um orsakasamband og sennilega afleiðingu ekki uppfyllt, þannig að stefndi eigi að bera ábyrgð á fasteignaviðskiptum og búferlaflutningum stefnda og fjölskyldu hans. Tekur stefndi fram að stefnandi hafi gert kaupsamning um eign á Akureyri degi eftir að bréf til hans um 6 mánaða tímabundið starf hjá slökkviliðinu var póststimplað. Hann hafi því verið búinn að gera tilboð í eign og verið búinn að kaupa hana áður en bréfið barst.
Stefndi telur það fjártjón sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir vera alfarið á hans ábyrgð. Beri hann ábyrgð á að hafa ekki komið til starfa þegar gert var ráð fyrir honum og einnig á eigin fasteignaviðskiptum og kostnaði af búferlum, enda hafi engin krafa verið gerð um heimilisfesti á Akureyri. Þá séu bótaliðir órökstuddir og ekki liggi fyrir hvort verðmætaaukning kunni að felast í fasteignaviðskiptum stefnanda. Þá liggi ekki fyrir hvort hann sé lakar fjárhagslega settur með þá fasteign sem hann keypti á ný. Stefnandi hafi því sjálfur bakað sér það tjón sem hann telji sig hafa orðið fyrir. Hafi hann ráðist í fasteignakaupin án nokkurs samráðs við stefnda, enda sé búseta hans og fjölskyldu hans stefnda óviðkomandi.
Þá hafi stefnandi ekki haft samband við stefnda er hann hafi talið sig verða varan við það að hann væri ekki velkominn til starfa. Ákvörðun um að koma ekki til vinnu hafi hann byggt á óstaðfestri hviksögu. Þá hafi hann leitað til varabæjarfulltrúa, sem ekki hafi boðvald yfir starfsmönnum stefnda, sbr. reglur stefnda um ábyrgðarmörk og starfshætti stjórnenda, kjörinna fulltrúa og nefndarmanna í stjórnsýslu stefnda. Hafi stefnandi í verki hafnað starfinu með því að koma ekki til vinnu og hann hafi ekki efnt sinn hluta gagnkvæms samnings þrátt fyrir áskorun og þar með bakað stefnda verulegt tjón.
V.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi. Þá gáfu vitnaskýrslur Þorbjörn Haraldsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, Ester Halldórsdóttir, eiginkona stefnanda, Ingimar Eydal, aðstoðarslökkviliðsstjóri á Akureyri, Birgir Finnsson, sviðsstjóri útkallssviðs slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri sama svæðis og Þórarinn B. Jónsson, varabæjarfulltrúi.
Fyrir liggur að stefnanda var tilkynnt með bréfi slökkviliðsstjóra 15. mars 2007 að ákveðið hefði verið að ráða hann til starfa sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamann. Verður sú ákvörðun talin bindandi milli aðila, sérstaklega í ljósi þess að ekki er ágreiningur um að síðar hafi verið samið um hvenær stefnandi hæfi störf, þótt ekki hafi verið gengið frá skriflegum ráðningarsamningi, sem verður að leggja til grundvallar að hafi staðið til að gera er stefnandi kæmi til starfa. Stefnanda og vitnunum Þorbirni Haraldssyni og Ingimar Eydal ber ekki saman um það hvort stefnanda hafi áður verið tjáð munnlega að hann fengi starfið. Verður samt sem áður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi ekki ákveðið ásamt fjölskyldu sinni að selja fasteign á höfuðborgarsvæðinu og kaupa fyrir norðan af öðru tilefni en því að hann væri að fá starf hjá stefnda. Bendir uppsagnarbréf hans 28. febrúar 2007 til hins sama.
Ágreiningur er um það hvort líta eigi svo á að stefnandi hafi verið ráðinn tímabundið til sex mánaða. Segir í nefndu bréfi að allir nýráðnir starfsmenn slökkviliðs Akureyrar fái 6 mánaða tímabundna ráðningu til að byrja með og framtíðarráðning síðan metin í starfsmannasamtali undir lok tímabundinnar ráðningar. Ekki liggur fyrir að það að stefnandi hefði áður starfað hjá stefnda leiddi til þess samkvæmt ákvæðum laga að þessi ætti ekki við um hann. Hins vegar verður ekki talið að stefnda hefði verið heimilt að synja stefnanda um nefnda framtíðar ráðningu í starf án gildra málefnalegra ástæðna. Verður því lagt til grundvallar að stefnandi hafi mátt gera sér réttmætar væntingar um að halda starfinu til frambúðar, sbr. til hliðsjónar ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 139/2003.
Í framburði Þorbjörns Haraldssonar kom fram að hann hafi hitt eiginkonu stefnanda á blakmóti og hún þá látið falla orð í þá veru að stefnandi hefði verið svikinn. Eiginkona stefnanda ber um þessi orðaskipti að hún hafi getið þess að þau stefnandi væru leið yfir því að hafa heyrt að þau væru ekki velkomin fyrir norðan, en kveðst ekki hafa orðað neitt í þá veru að þau væru að hugleiða að hætta við það að flytjast norður.
Stefnanda og Þorbirni ber saman um að í kjölfar þessa hafi hinn síðarnefndi hringt til stefnanda, en ber ekki saman um efni samtals þeirra. Kveðst stefnandi hafa getið umræðu sem sér þætti leitt að vita af, en neitar því að um hafi verið talað að hann léti vita fyrir 30. apríl hvort hann kæmi til starfa eða ekki, svo sem vitnið Þorbjörn ber að hafa áskilið. Verður ekki talið sannað gegn mótmælum stefnanda að þessi áskilnaður hafi verið gerður.
Vitnið Ingimar Eydal ber að hafa reynt að ná í stefnanda símleiðis án árangurs rétt áður en hann átti að hefja störf. Kveðst hann hafa sent honum textaskilaboð 8. maí 2007 með fyrirspurn um það hvort hann kæmi með vinnugalla með sér. Stefnandi kannast við að hafa fengið þau skilaboð, en ekki svarað að bragði, heldur ætlað að athuga hvort hann fengi að taka gallann með. Ekki mun hafa verið reynt að ná sambandi við stefnanda með öðrum hætti en að hringja í farsíma hans.
Þorbjörn og Ingimar fengu staðfest í framhaldi af þessu hjá yfirmönnum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu að stefnandi hefði dregið uppsögn sína þar til baka. Liggur fyrir tölvupóstur þessa efnis frá Birgi Finnssyni, dagsettur 9. maí 2007. Stefnandi ber að hann hafi gripið til þessa ráðs vegna þess að honum fannst óvissa komin upp með afstöðu stefnda til þess að hann kæmi til starfa, en ekki liggur alveg ljóst fyrir hvert tilefni þeirrar óvissu var. Í framburði Jóns Viðars Matthíassonar kom fram að stefnandi hafi átt þess kost að halda starfi sínu syðra áfram ef svo færi að hann færi ekki norður, en að ekki hafi staðið til að hann þyrfti að vinna af sér uppsagnarfrest, ef hann færi til starfa hjá stefnda. Verður ekki lagt til grundvallar með hliðsjón af þessu að stefnanda hafi verið ómögulegt vegna þessa að mæta til starfa hjá stefnda á umtöluðum tíma.
Ljóst er hins vegar að af hálfu stefnda var af þessu ályktað að stefnandi væri hættur við að koma til starfa hjá stefnda. Verður fallist á það með stefnanda að þessi ályktun hafi verið dregin án nægilegrar könnunar, sem stefnda bar að gera samkvæmt 10. gr. laga nr. 37/1993, sem giltu um ákvarðanir stefnda sem hér er fjallað um, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna. Ekki hefur verið hnekkt þeirri staðhæfingu stefnanda að ekki hafi staðið annað til en að hann mætti til vinnu 11. maí 2007. Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að frekari könnun af hálfu stefnda hefði leitt í ljós að áhyggjur starfsmanna hans um að stefnandi kæmi ekki til vinnu væru óþarfar.
Vitnið Þórarinn B. Jónsson kveðst hafa verið kunnugur stefnanda frá fyrri tíð. Ber hann að stefnandi hafi haft samband við sig og beðið sig að kanna hvort einhver ávæningur væri um að hann væri ekki velkominn norður. Hann kveðst hafa fengið staðfest hjá bæjarstjóra að ekki væri annað vitað en að stefnandi væri að koma til starfa. Kveðst hann hafa tjáð stefnanda þetta símleiðis þann 10. maí 1997. Tveimur til þremur tímum seinna hafi stefnandi hringt til sín og lýst símtali við slökkviliðsstjóra, þar sem komið hefði fram að hann þyrfti ekki að koma norður.
Bæði stefnandi og Þorbjörn Haraldsson kannast við að hafa rætt saman í síma þann 10. maí, en greinir nokkuð á um efni samtalsins. Kveður stefnandi Þorbjörn hafa sagt að hann væri ,,vandræðagemlingur" og ,,fortíðardraugur" og að hann vildi hann ekki. Þorbjörn ber að stefnandi hefði staðfest að hann hefði dregið uppsögn sína í Reykjavík til baka, vegna orðróms um að hann væri óvelkominn norður. Þá kveðst Þorbjörn hafa sagt stefnanda að hann þyrfti ekki að koma.
Í ljósi þess að samkvæmt þessu liggur fyrir að stefnanda var sagt að hann þyrfti ekki að koma verður það talið honum afsakanlegt að hann gaf sig ekki fram á vinnustað hjá stefnda þann 11. maí 2007. Þórarinn B. Jónsson kveðst hafa ráðlagt honum að gera svo, en stefnandi hafi verið niðurbrotinn yfir þessu og ekki treyst sér til að mæta þar sem hann teldi sig óvelkominn.
Fyrir liggur að seint í maí eða snemma í júní komu stefnandi og með honum nefndur Þórarinn á fund Þorbjarnar og Ingimars. Engin fundargerð var rituð. Í lýsingu sem Þórarinn ritaði 16. desember 2007 og sendi lögmanni stefnanda segir að Þorbjörn og Ingimar hafi staðfest símtalið frá 10. maí um það atriði að stefnanda væri ekki lengur vænst. Komið hafi fram að Ingimar hafi sagst hafa reynt að ná í stefnanda símleiðis 8. maí og sent honum textaskilaboð. Hafi stefnandi sagt að hann hefði verið á vakt fram á nótt. Þórarinn hafi spurt hvort ekki væri unnt að ljúka málinu með því að stefnandi kæmi til starfa hjá stefnda, en Þorbjörn sagt að það kæmi ekki til greina. Þórarinn staðfesti þessa lýsingu í skýrslu sinni fyrir dómi. Í framburði Ingimars Eydals um þennan fund kom fram að hann minnti að komið hafi fram hjá slökkviliðsstjóra að stefnanda stæði ekki lengur til boða að koma til starfa. Hefði það m.a. verið í ljósi þess að búið hefði verið að gera ráðstafanir til að manna stöðuna. Liggur frammi í málinu orðsending slökkviliðsstjóra dagsett 15. maí 2007 um að nánar greindur maður hefði verið lausráðinn til orlofsafleysinga frá og með 16. maí til 1. október 2007.
Leggja verður til grundvallar sem ósannað að stefnandi hafi látið það ótvírætt í ljósi í orði eða verki að hann hefði fallið frá því að koma til starfa eins og um hafði verið talað. Var starfsmönnum stefnda ekki rétt að álykta án nánari könnunar að svo væri. Þá verður lagt til grundvallar að slökkviliðsstjóri stefnda hafi tjáð honum þann 10. maí 2007 að koma ekki til vinnu daginn eftir. Eftir því sem rakið hefur verið hér að framan um það sem fram kom á fundinum í lok maí eða byrjun júní átti stefnandi þá ekki kost á starfinu framar. Samkvæmt þessu var ákveðið af hálfu stefnda að hafna vinnuframlagi stefnanda. Sú ákvörðun var ekki reist á lögmætum grunni, þar sem hún var tekin án nægilegrar fyrirfarandi könnunar á afstöðu stefnanda og leiddi það að könnunin var ófullnægjandi til rangrar ályktunar þess efnis að hann vildi ekki koma til starfa. Þótt ágreiningur sé um efni símtals stefnanda og slökkviliðsstjóra þann 10. maí 2007 verður að ráða af því að það hafi átt að vera slökkviliðsstjóra tilefni þess að gæta nánar að réttmæti þessarar ályktunar. Þá verður ekki séð að ómögulegt hafi verið að breyta þessari ákvörðun stefnanda í hag er fram kom á nefndum fundi spurning um hvort hann ætti ennþá kost á starfinu, en miða verður við að hún hafi þess í stað verið áréttuð. Verður fallist á það með stefnanda að stefndi hafi með þessu rift með ólögmætum hætti ráðningarsamningi aðila. Hefur stefndi með þessu bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda.
VI.
Stefnandi sundurliðar skaðabótakröfu sína þannig:
1. Kostnaður við að selja Einihlíð 14, Hafnarfirði: kr. 852.962
2. Flutningskostnaður: kr. 141.715
3. Flugkostnaður: kr. 107.250
4. Þinglýsing kaupsamn. og skuldabréfs v. Bakkahlíðar: kr. 129.230
5. Sölukostnaður vegna Bakkahlíðar 5, Akureyri: kr. 812.363
6. Kostnaður við kaup á Einihlíð 13, Hafnarfirði: kr. 652.880
7. Vinna við flutninga og kaup og sölu fasteigna, 260 klst.: kr. 549.900
8. Kostnaður við Hvalfjarðargöng, bensínkostnaður og hótel: kr. 62.811
9. Þinglýsingarkostnaður: kr. 4.050
10. Flutningskostnaður suður: kr. 100.000
Samtals: kr. 3.413.161
Tekið er fram um 7. lið að miðað sé við tímakaup stefnanda í yfirvinnu eins og það hafi verið í febrúar 2007.
Liðir 1-2, 4-6 og 9-10 eru studdir reikningum frá fasteignasölum, flutningsaðilum og sýslumönnum. Liður 3 er studdur reikningum fyrir flugferðir stefnanda á tímabilinu 18. mars 2007 til 30. október sama ár. Liður 8 er studdur allmörgum smáum reikningum og greiðslukvittunum vegna veggjalda, eldsneytiskostnaðar og hótelgistingar á síðari hluta ársins 2007 og í byrjun ársins 2008.
Af hálfu stefnda er því almennt mótmælt að hann sé bótaskyldur vegna kostnaðar stefnanda af kaupum og sölu fasteigna og búferlum hans, þar sem ekki séu uppfyllt skilyrði almennu skaðabótareglunnar um orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Þá tekur hann fram að ekki hafi verið gert skilyrði um búsetu vegna starfsins. Enn fremur er einstökum liðum mótmælt sem órökstuddum, svo sem vinnu við flutninga og fasteignaviðskipti og ferðakostnaði.
Eins og áður er rakið verður lagt til grundvallar að stefnandi hafi haft réttmætar væntingar um að hann hefði verið ráðinn í starf hjá stefnda og að hann gæti haldið því til frambúðar. Stefnda gat ekki dulist að stefnandi þyrfti að flytja búferlum til að geta gegnt starfinu og að veruleg hætta væri á því að hann yrði fyrir fjártjóni með tilliti til þessa vegna þess að stefndi synjaði honum um að koma til starfa. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að skilyrði um orsakatengsl og sennilega afleiðingu séu ekki uppfyllt.
Eins og atvikum þessa máls er háttað verður að líta til þess að ekki var óeðlilegt að stefnandi, sem er fjölskyldumaður, seldi fasteign á höfuðborgarsvæðinu og keypti aðra á Akureyri til að flytja búferlum sem honum var nauðsynlegt til að geta gegnt fyrirhuguðu starfi hjá stefnda. Í ljósi þess að honum var synjað um starfið var það jafnframt eðlileg afleiðing þess að hann seldi eignina á Akureyri á ný og keypti aftur á höfuðborgarsvæðinu. Þykir eiga að dæma stefnda til að bæta honum kostnað sem af þessu hlaust. Verða samkvæmt því dæmdar fjárhæðir samkvæmt liðum 1, 4-6 og 9 í kröfugerð hans. Þá verða dæmdar fjárhæðir samkvæmt liðum 2 og 10 vegna flutninga á búslóð. Eftir standa liðir 3, 7 og 8, sem eru vegna ferðalaga stefnanda og launa sem hann reiknar sér vegna fyrirhafnar við kaup og sölu fasteigna og búferlaflutninga. Erfitt er að leggja mat á það hvort og þá hvaða ferðalög voru stefnanda óhjákvæmileg nauðsyn, en í ljósi framlagðra kvittana og þess að líkur má að því leiða að hann hafi haft slíkan kostnað af búferlaflutningum og því að fjölskyldu hans hafi ekki verið fært að fylgja honum fyrr en síðar þykir rétt að dæma honum nokkrar bætur vegna ferðakostnaðar. Verða þessir liðir teknir til greina í einu lagi með 100.000 krónum.
Ekki liggur fyrir að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna tapaðra vinnutekna. Rétt þykir þó að dæma honum nokkrar bætur vegna fyrirhafnar við flutningana, með hliðsjón af yfirliti sem hann hefur lagt fram um þann tíma sem hann telur sig hafa varið til þeirra. Verður þessi kröfuliður tekinn til greina með 200.000 krónum.
Eftir þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð samtals 2.993.200 krónur, með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi eins og greinir í dómsorði.
VII.
Miskabótakrafa stefnanda er studd við það að hann hafi átt rétt á því að komið væri fram við hann af virðingu en ekki að hann væri af yfirmanni stefnda kallaður fortíðardraugur, en slíkar fullyrðingar séu órökstuddar og brot á starfsheiðri hans. Þá hafi meðferð stefnda falið í sér brot gegn æru hans almennt og starfsheiðri. Hafi það haft í för með sér verulega röskun á friði hans og fjölskyldu. Þá hafi framkoma yfirmanna í hans garð verið niðurlægjandi og eigi stefndi að bæta það í formi miskabóta. Enn fremur hafi fylgt mikil streita fyrir stefnanda og fjölskyldu hans, sem hafi ákveðið að rífa upp rætur sínar og flytja norður með tilheyrandi fyrirhöfn og röskun. Hafi börn hans skipt um skóla og síðan þurft að sækja um nýjan skóla er flutt var suður. Hafi stefnandi þurft að flytja til Reykjavíkur, en eiginkona hans og börn hafi orðið eftir á Akureyri. Hafi þetta haft alvarleg áhrif á börn stefnanda og allt fjölskyldulíf þeirra, sem hafi komið niður á heilsu foreldranna. Þá hafi fylgt þessu röskun fyrir aldraðan föður stefnanda, sem hafi ætlað að búa hjá fjölskyldunni og selt af þeim sökum íbúð sína á Akureyri.
Stefndi mótmælir því að uppfyllt séu skilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem stefndi hafi ekki sýnt af sér saknæma hegðun. Hafi starfsmenn stefnda ekki gerst sekir um ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda eða fjölskyldu hans.
Vitnið Þorbjörn Haraldsson hefur neitað því að hafa kallað stefnanda fortíðardraug en kveðst hafa nefnt fortíðarvanda í samtölum við hann. Vitnið Þórarinn B. Jónsson kveður Þorbjörn hafa notað orðið „fortíðardraugur" á fyrrgreindum fundi. Er Þórarinn var nánar spurður um þetta atriði kvað hann ekki útlokað að það hefði verið notað í tengslum við atvik sem leiddu til þess að gerður var starfslokasamningur við stefnanda á sínum tíma, fremur en að orðið hafi verið notað um stefnanda sjálfan. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að ekkert hefur komið fram í þessu máli sem bent getur til að stefnandi hafi átt einhverja sök á atvikum sem ollu því að ákveðið var að semja við hann um starfslok. Verður ekki talið sannað gegn framburði vitnisins Þorbjörns að stefnandi hafi verið kallaður fortíðardraugur.
Hér að framan er rakið að stefndi ákvað með ólögmætum hætti að synja stefnanda um að koma til starfa að undangenginni ályktun um að hann hefði hætt við að koma til vinnu. Verður ekki fallist á að stefndi hafi með þessu brotið gegn æru eða starfsheiðri stefnanda þannig að miskabótum varði, eða raskað friði fjölskyldu hans með persónulegri meingerð, þótt hagir fjölskyldunnar hafi augljóslega breyst frá því sem ætlað var vegna ákvörðunar stefnda. Verður eftir þessu ekki fallist á að stefndi hafi bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta og verður hann sýknaður af þeim kröfulið.
Eftir þessum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 900.000 krónur.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 áður en dómur var kveðinn upp.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Akureyrarbær, greiði stefnanda, Sigurði Lárusi Sigurðssyni, 2.993.200 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. júní 2008 til greiðsludags og 900.000 krónur í málskostnað.
Erlingur Sigtryggsson