AkureyrarAkademían 5 ára - með söng, fræðum og böku á Akureyrarvöku
AkureyrarAkademían verður með veglega dagskrá á Akureyrarvöku næstkomandi laugardag 27. ágúst. Tilefnið til hátíðarhalda er
ærið þar sem 5 ár eru liðin frá stofnun Akademíunnar eða Félags sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi.
Haldið verður upp á þessi tímamót með dagskrá í Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti.
Dagskráin hefst á slaginu 12 með ávarpi formanns félagsins, Péturs Björgvins Þorsteinssonar, en hann ætlar jafnframt að heiðra fyrsta heiðursfélaga Akademíunnar. Því næst syngur Arna Guðný Valsdóttir. Margrét Helgadóttir sagnfræðingur flytur svo erindið "Gullöld húsmæðra". Að þessu loknu verður gestum boðið upp á myndarlega bökuveislu að hætti hagsýnna húsmæðra og er það alveg í takt við árstímann og eins við pyngju Akademíunnar sem býr nú á afmælisárinu við heldur þröngan fjárkost. Vonandi verður veðrið gott, þannig að hægt verði að slá upp veisluborði úti í garði. Viðburðurinn er öllum opinn og öllum að kostnaðarlausu.