Árið 1986 var eitt sinn sem oftar fjallað um sjúkdóminn AIDS eða eyðni í spjallþætti í útvarpinu og hlustendur beðnir að hringja og koma með tillögur um hvað helst ætti að taka til bragðs andspænis þessum ógnvænlega sjúkdómi. Ýmsir og misjafnlega ráðagóðir höfðu samband. Meðal annars lagði einn innhringjandi til að AIDS sjúklingar yrðu með öllu einangraðir frá íslensku samfélagi, þeir sendir út í Kolbeinsey og hafðir þar í sóttkví, allt þar til lækning við sjúkdómnum fyndist.
Svo vildi til að 10 ára dóttir eins af skipverjum á togaranum Kolbeinsey ÞH-10 sem gerður var út frá Húsavík, var einmitt að hlusta á þennan útvarpsþátt og varð afar hverft við. Stúlkan hljóp með tárin í augunum til móður sinnar og skipaði henni að hringja strax í útvarpið og banna þessa fólksflutninga, því hún vildi sko alls ekki að pabbi hennar smitaðist af AIDS ef allir eyðnisjúklingarnir yrðu sendir um borð í togarann! JS