Áhugafólk um knattspyrnu kvenna stofnar hagsmunafélag

Félag áhugafólks um kvennaknattspyrnu (FÁK) var stofnað þann 19. júní sl., á 96 ára afmæli kosninga- og kjörgengisréttar kvenna á Íslandi. Megin tilgangur félagsins er að standa vörð um hag kvenna í íslenskri knattspyrnu ásamt því að búa til vettvang fyrir skoðanir hagsmunaaðila. Meðal fyrstu markmiða félagsins er að auka aðsókn á kvennaleiki, bæði lands- og félagsliða, auka umfjöllun og umræðu um knattspyrnu kvenna og jafna hlut kvenna og karla á öllum sviðum íslenskrar knattspyrnu.  

Heimasíða félagsins, kvennafotbolti.is verður sett í loftið á morgun, 17. september, en þá leika bæði A-landsliðið og U19-landslið kvenna í undankeppni Evrópumótsins. A-landsliðið etur kappi við Noreg á Laugardalsvelli klukkan 16:00 í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Svíþjóð 2013 og U19 lið spilar gegn Slóveníu á Vodafonevellinum klukkan 12:00.

Meðal stofnenda félagsins eru þrír þjálfarar yngri flokka kvenna og einn þjálfari meistaraflokks kvenna. En stofnendur félagsins eru fimm talsins: Ólafur Lúther Einarsson, Íris Björk Eysteinsdóttir, Hallur Ólafur Agnarsson, Daði Rafnsson og Ásgrímur H. Einarsson. Stjórn félagsins skipa Ólafur Lúther Einarsson, formaður, Daði Rafnsson, Ásgrímur H. Einarsson, Hrönn Guðmundsdóttir og Þórir Óskarsson.

Stofnendur félagsins telja aðsókn á leiki íslenskra kvennalandsliða og félagsliða almennt ekki nægilega góða, umfjöllun og áhuga fjölmiðla oft ekki vera í samræmi við árangur kvennalandsliða okkar og að oft sé ekki borin nægilega mikil virðing fyrir knattspyrnu kvenna meðal almennings og því varákveðið að stofna félag til stuðnings knattspyrnu kvenna á Íslandi.

Aðdragandinn að stofnun félagsins hefur verið þó nokkur en hugmyndina átti Ólafur Lúther Einarsson, þriggja stúlkna faðir á höfuðborgarsvæðinu, en tvær elstu dætur hans, sem eru 10 ára og 6 ára, æfa knattspyrnu. Það hefur vakið athygli hans hversu fáir áhorfendur mæta á leiki meistaraflokka kvenna í samanburði við meistaraflokk karla. „Ég held að skýringin á þessum mismun sé fyrst og fremst þekkingarleysi og að fólk sé almennt ekki meðvitað um kvennaknattspyrnuna. Ég var sjálfur alls ekki nógu meðvitaður um knattspyrnu kvenna fyrr en elsta dóttir mín fór að æfa og við fórum að fara á leiki saman, bæði karla- og kvennaleiki."

A - landslið kvenna í knattspyrnu er sem stendur níunda besta landslið Evrópu og sextánda besta landslið heims samkvæmt styrkleikalista FIFA. Kvennalandsliðið komst fyrst íslenskra A - landsliða í knattspyrnu í lokakeppni stórmóts árið 2009 þegar það spilaði í úrslitakeppni Evrópumótsins í Finnlandi. U19 ára landsliðið komst í milliriðil á EM 2011 og U17 ára landsliðið komst í fjögurra liða úrslit á EM 2011 ásamt Spánverjum, Þjóðverjum og Frökkum. Stofnendur félagsins telja því ljóst að íslenskar knattspyrnukonur eru meðal þeirra allra bestu í heiminum. Daði Rafnsson, einn stofnenda félagsins segir:

„Öll íslensku kvennalandsliðin hafa náð gríðarlega góðum árangri undanfarin ár þrátt fyrir smæðina. Við eru með ákveðið forskot á margar aðrar þjóðir í kvennaknattspyrnunni, svolítið eins og í handboltanum. Það er afar mikilvægt fyrir framtíðar landsliðsstelpur að vel sé stutt við við knattspyrnu íslenskra kvenna til að halda þessu forskoti og jafnvel auka það, við höfum alla möguleika á því ef viljinn er fyrir hendi."

Markmið og tilgangur félagsins er að styðja við knattspyrnu kvenna á Íslandi á öllum aldri, m.a. með því að auka fræðslu um hana, stuðla að aukinni þekkingu um hana, efla enn frekar þátttöku kvenna í knattspyrnu á Íslandi, veita málefnalegt aðhald og vinna gegn hvers kyns órétti og ójafnræði í tengslum við hana. Með þessu vonast félagið jafnframt til aðsókn á knattspyrnuleiki kvenna á Íslandi aukist jafnt og þétt sem og áhuginn á kvennaknattspyrnu almennt.

Fyrsta verkefni félagsins lýtur dagsins ljós á morgun, 17. September, þegar heimasíða þess verður sett í loftið en með stuðningi VÍS var félaginu kleiyft að koma upp heimasíðu. Samkvæmt Ólafi og Daða ermun heimasíðunni verið ætlað að gegna mikilvægu hlutverki í að miðla upplýsingum um kvennaknattspyrnu til Íslendinga ásamt því að fylgja eftir íslenskum knattspyrnukonum á erlendri grundu. Síðunni er fyrst og fremst ætlað að vera frétta- og upplýsingaveita. Ólafur og Daði telja að lokum nauðsynlegt að fá knattspyrnufélögin, leikmenn meistaraflokks kvenna, stuðningsmannafélög liða og fleiri hagsmunaaðila til liðs við félagið.

Nýjast