Áhersla á vélaumhverfi og viðhald í vinnuverndarvikunni

Vinnuverndarstofnun Evrópu stendur árlega fyrir evrópsku vinnuverndarvikunni. Þetta sameiginlega átak Evrópuþjóða er haldið í október eins og áður. Vinnueftirlitið sér um framkvæmd verkefnisins hér á landi en reynt er að ná víðtækri samvinnu um verkefnið í hverju landi. Vinnuverndarvikan stendur yfir þessa viku, 24.-28. október, og er að þessu sinni notuð til að kynna fyrir atvinnulífinu áhættumat í tengslum við viðhaldsvinnu.

Á síðasta ári var áhersla á viðhaldsvinnu í tengslum við byggingarviðhald en á þessu ári er kastljósinu beint að vélaumhverfinu og viðhaldi á vélum. Rík áhersla er á gerð áhættumats áður en farið er í viðhaldsvinnu. Það er lögbundin skylda allra atvinnurekenda að sjá til þess að áhættumat sé unnið fyrir viðkomandi vinnustað og við viðhaldsvinnu er algerlega nauðsynlegt að gera áhættumat á verkinu áður en vinnan fer af stað. Þetta er kjörið tækifæri fyrir stjórnendur og starfsmenn til að lyfta upp og efla það vinnuverndarstarf sem þegar er til staðar í fyrirtækjum og eru þau hvött til að nýta sér upplýsingar um öryggi við viðhaldsvinnu sem er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins.

Átakið beinist að atvinnurekendum og starfsmönnum. Allir sem vinna við viðhald eru hvattir til þátttöku. Viðhaldsvinna leggur starfsmenn í hættu, en að sleppa viðhaldi leggur ennþá fleiri starfsmenn í enn meiri hættu. Atvinnurekendur sem viðhalda ekki vélum og öðrum búnaði á fullnægjandi hátt eða sem hunsa öryggi vinnustaðarins, taka áhættuna á stórfenglegu tjóni.

 

 

Nýjast