Áhersla á sókn í mennta- og skólamálum í sameinuðu sveitarfélagi

Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsvei…
Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Ragnhildur Sigurðardóttir fyrir hönd Svartárkots menningar— náttúru við undirritun viljayfirlýsingarinnar. Mynd/Skútustaðahreppur.

Fulltrúar Háskóla Íslands, Svartárkots menningar — náttúru, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að vinna í sameiningu að stofnun rannsóknaseturs á sviði umhverfishugvísinda í sameinuðu sveitarfélagi í Suður-Þingeyjarsýslu en sókn í mennta- og skólamálum er ein af höfuð áherslum í sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Skútustaðahrepps.

Viljayfirlýsinguna undirrituðu þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ragnhildur Sigurðardóttir fyrir hönd Svartárkots menningar — náttúru, Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, og Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar. Markmiðið með stofnun setursins er að efla hugvísindarannsóknir á sviði umhverfismála, skapa vettvang fyrir þverfaglegt samstarf á því sviði og efla atvinnulíf sveitarfélaganna tveggja sem sameinast munu á næsta ári. Lögð verður áhersla á markvissa miðlun þekkingar, samtal milli almennings og fræðasamfélags og að komið verði á fót öflugri miðstöð fyrir skapandi og gagnrýna umræðu um umhverfismál.

Samstarfið miðar að því að á næstu mánuðum fari fram vinna við fjármögnun og annan undirbúning stofnunar setursins, sem verður samstarfsvettvangur Svartárkots menningar - náttúru og Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.  Undirbúningur stofnunar rannsóknaseturs Háskóla Íslands á sviði umhverfishugvísinda er hafinn en Svartárkot menning — náttúra hefur starfað að rannsóknum og haldið námskeið á sviði umhverfishugvísinda í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit síðustu 15 ár í samstarfi við heimamenn og alþjóðlegt teymi vísindamanna.

Fyrirhugað er að setrið verði til húsa í gamla grunnskólanum á Skútustöðum í Mývatnssveit (Hótel Gíg), þar sem viljayfirlýsingin var undirrituð en ríkiseignir festu kaup á húsnæðinu í upphafi þessa árs. Þar verða einnig til húsa fjórar stofnanir sem starfa á sviði umhverfismála: Vatnajökulsþjóðgarður, Umhverfisstofnun, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn og Landgræðslan.


Nýjast