Ágreiningur um sölufyrirkomulag á Verbúðunum

Hafnarstétt 1, sem Steinsteypir vill láta í skiptum fyrir Verbúðirnar. Mynd/epe
Hafnarstétt 1, sem Steinsteypir vill láta í skiptum fyrir Verbúðirnar. Mynd/epe

Byggðarráð Norðurþings hafnaði nýverið  fyrirliggjandi tilboði í Hafnarstétt 17 eða verbúðirnar en tilboðið er upp á 80 milljónir króna og felur í sér að greitt sé fyrir kaupin með eigninni að Hafnarstétt 1.

Sveitarstjóra var falið að undirbúa gerð gagntilboðs á grunni fyrra tilboðs sem lagt yrði fyrir byggðarráð að því gefnu að sveitarfélagið hafi heimild til að yfirtaka áhvílandi virðisaukaskattskvöð á Hafnarstétt 1. Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar á þriðjudag í síðustu viku.

Það er Steinsteypir ehf. sem er eigandi að Hafnarstétt 1 og er Friðrik Sigurðsson, athafnamaður og fyrrum forseti sveitarstjórnar sem er í forsvari fyrir viðskiptunum en hann er einn eigenda fyrirtækisins.

 Makalaus makaskipti

Ágreiningur er um málið í sveitarstjórn en minnihlutinn er alfarið á móti því að greitt sé fyrir verðbúðirnar með annarri eign.

„Fyrir það fyrsta þá höfum við ekkert á móti því að verbúðin sé seld, ef menn eru tilbúnir í það. Það er hið besta mál en við erum algjörlega mótfallin því að hún sé greidd með annarri eign sem m.a. er í samkeppnisrekstri og getur ekki borið sig sjálf undir neinum kringumstæðum,“ segir Bergur Elías Ágústson, fulltrúi B-lista í samtali við Vikublaðið og vísar þar til þess að leigjandi að Hafnarstétt 1 er veitingastaðurinn Lókal og eru leigutekjur af eigninni 182,731 krónur á mánuði án vsk.

„Það er líka mikill mismunur á þessum eignum en fasteignamatið af Hafnarstétt 1 er bara 54% af mati verbúðanna. Auðvitað er búið að gera töluvert fyrir eignina en þetta eru bara 306 fermetrar og verðbúðirnar eru yfir 850 fermetrar,“ útskýrir Bergur.

Fasteignamat Hafnarstéttar 1. er 15,5 milljónir, þar af er lóðarmatið 2,1 milljón. Brunabótamatið er 99,3 milljónir.

Fasteignamat verbúðanna er 28,85 milljónir þar af er lóðarmat 1,05 milljón. Brunabótamatið er 118,5 milljónir.

„Það sem við viljum er að ef einhver hefur áhuga á Verðbúðunum þá kemur hann bara og kaupir hana með handfæru fé,“ segir Bergur en ágreiningurinn virðistBergur Elías felast í því að hvernig greitt er fyrir kaupin en ekki að Verbúðirnar séu seldar. „Þarna er líka virðisaukaskatts skuldbinding, hana ætlar væntanlega sveitarfélagið að taka yfir. Við viljum bara hafa hreint borð og ekki fara í svona leiðangur.“

Aðspurður hvort það skipti máli að engin tilboð önnur hafi borist í eignina og að Hafnarstétt 1 sé söluvænlegri eins og meirihlutinn heldur fram svarar Bergur þannig: „Þetta er lóð á besta stað, sennilega ein verðmætasta lóðin í bænum, á miðju hafnarsvæðinu. Þá rjúka menn ekkert upp til handa og fóta og henda þessu í burtu í einhver makaskipti við fyrsta tilboð sem kemur, það munu koma fleiri. Ef Hafnarstétt 1 er betri söluvara þá selur viðkomandi bara eignina og kaupir svo Hafnarstétt 17 með handbæru fé. Leigutekjurnar bera ekki einu sinni 25 milljónir og menn ætla að kaupa þetta á 80 milljónir. Þannig að menn eru bara að fara í bullandi taprekstur, plús það að tekjumöguleikar verðbúðanna eru miklu meiri. Þar eru hærri leigutekjur þrátt fyrir að í verbúðunum séu aðeins þrír leigjendur en gætu verið miklu fleiri,“ segir hann.

Blaðamaður spyr þá hvort eftirspurn að verðbúðunum hafi verið til staðar?

Bergur játar að það hafi ekki verið á þeim tíma sem hann hafi setið í skipulagsráði en bætir við að hann vísi því á bug að ástandið á eigninni sé jafn slæmt og af er látið. „Mér finnst þessi ráðstöfun ekki vera til hagsbótar fyrir samfélagið. Hún getur verið til hagsbótar fyrir einstaka aðila en ekki íbúa sveitarfélagsins.“

Sjá fyrir sér minni áhættu

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, forseti sveitarstjórnar er á öðru máli en afstaða meirihlutans er sú að það sé réttlætanlegt að taka við Hafnarstétt , það feli í sér minni áhættu en að eiga áfram Verbúðirnar þar sem þarf að ráðast í miklar endurbætur á næstunni. „Önnur eignin er í mun betra standi, ný búið að taka allt í gegn þar á meðan hin eignin er í mjög slæmu ásigkomulagi. Þannig að verðmatið er bara svipað fyrir eignirnar,“ segir Kolbrún í samtali við Vikublaðið og bætir við að kaupandinn sé með gríðarlega uppbyggingu á verbúðunum í huga.  „Þær hugmyndir sem hann hefur lagt fram er að gera litlar íbúðir í þessum rýmum og hefur lagt fram teikningar eftir Agnesi Guðmundsdóttur. skemmtilegar hugmyndir að litlum íbúðum. Við óskuðum eftir þessum upplýsingum en þetta á eftir að koma aftur fyrir byggðarráð og sveitarstjóra er falið að ganga til samninga og gera gagntilboð.“

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir

Þá segir hún að komi hafið fram í viðræðum við kaupanda að honum hugnist ekki að greiða fyrir verðbúðirnar með haldbæru fé og því sé viðunandi að taka við Hafnarstétt 1 sem greiðslu vegna þess að minni áhætta sé fólgin í því að eiga þá eign. „Við sjáum fyrir okkur að Hafnarstétt 1 sé söluvænlegri, miðað við að það hefur enginn gert tilboð í Verbúðirnar,“ segir Kolbrún. Hún bætir við að planið sé að selja Hafnarstétt 1. Ef kaupin ganga í gegn. „Það eru gildandi leigusamningar á eigninni auk þess að þarna eru almennings klósett sem við myndum í rauninni taka yfir og getað boðið upp á sem hefur oft verið talað um að vanti þarna á svæðið. Við erum auðvitað að reyna losa okkur við þær eignir sem við þurfum ekki að eiga, þannig að það er framtíðarsýnin að selja þessa eign einnig.“

Kolbrún gefur lítið fyrir málflutning minnihlutans um að þarna sé sveitarfélagið að taka við taprekstri sem er jafnframt í samkeppni við aðra veitingaaðila.

Fyrirsláttur hjá minnihlutanum

„Núna eru fastir leigusamningar sem eru kannski ekki háir í þessu ástandi sem er vegna Covid en mér finnst frekar ódýrt að bera þetta svona saman því við erum vissulega að greiða af Verðbúðunum og fáum nánast engar tekjur þar inn. Það er ekki svo að það skapi mikinn mínus í eignasjóði vegna þessara skipta. Það er eitt fyrirtæki, Lókal að leigja þarna og vissulega eru fleiri matsölustaðir á svæðinu. Mér finnst þetta vera fyrirsláttur. Minni hlutinn vill meina að það sé ódýrari leiga hjá þeim og við værum þá að skaffa húsnæði undir atvinnurekstur sem sveitarfélagið hefur alveg gert áður. Þá getum við líka sagt að við höfum verið að niðurgreiða húsnæði fyrir smábátaeigendur í öll þessi ár því við eigum verbúðirnar,“ segir Kolbrún.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálastjóra Norðurþings voru leigutekjur af Verbúðunum í síðasta mánuði 388.801 krónur.


Athugasemdir

Nýjast