Meðferðarheimilið á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit hélt í haust tónleika til þess að styrkja minningarsjóð Sigrúnar Mjallar Jóhannesdóttir. Sigrún Mjöll eða Sissa eins og hún var oftast kölluð var í meðferð á Laugalandi og átti góða tíma þar. Hún lést í júní 2010 vegna fíkniefnaneyslu, aðeins 17 ára gömul. Við andlát Sissu stofnaði faðir hennar, Jóhannes Kr. Kristjánsson, minningarsjóð. Hlutverk sjóðsins er að styrkja skapandi verkefni ungmenna sem lent hafa út af sporinu og eru á meðferðarheimilum landsins.
Þann 30.september sl. stóð Meðferðarheimilið á Laugalandi fyrir tónleikunum Í minningu Sissu í Hofi á Akureyri. Fjölmargir listamenn komu fram sem gerðu tónleikana að bestu skemmtun. Það voru: Hvanndalsbræður, Karlakór Akureyrar-Geysir, Rúnar Eff, Júlí Heiðar, Bjartur Elí, Friðrik Dór, Kór Glerárkirkju, Óskar Pétursson, Eyþór Ingi Jónsson, Friðrik Ómar, Ágústa Eva og Páll Óskar. Allur ágóði tónleikana skyldi renna í minningarjóð Sigrúnar Mjallar. Góð mæting var á tónleikana og söfnuðust 820 þúsund af miðasölu og styrkjum. Margir aðila sýndu málefninu stuðning á einn eða annann hátt. Það voru m.a. samfélags-og mannréttindarnefnd Akureyrarbæjar, Strikið og N4 sem veittu stuðning en sérstaklega ber þó að nefna stuðning frá Braga Guðbrandssyni og hans fólki hjá Barnaverndarstofu, sem studdi vel við verkefnið.
Styrkurinn var afhentur að Laugalandi í dag og tók Jóhannes Kr. Kristjánsson, faðir Sissu, við styrknum, úr hendi þeirra Péturs Broddasonar forstöðumanns og Péturs Guðjónssonar starfsmanns þar. Jóhannes var að vonum ánægður með þetta framtak en þetta mun vera í fyrsta skipti sem meðferðarheimili hér á landi ræðst að svona verkefni. Fram kom í dag að unnið væri að því að endurtaka leikinn í Reykjavík, þ.e. að halda aðra styrktartónleika. Á Laugalandi eru að jafnaði 6 stúlkur í einu og dvelja þar að meðaltali í 8-10 mánuði. Það mátti heyra á þeim stúlkum sem þar dvelja nú, að þær eru ánægðar með dvölina og nefndu sérstaklega traust og kærleika starfsfólks í því sambandi. Einnig kom fram að það vantaði eftirmeðferð fyrir þær stúlkur sem dvalið hafa á Laugalandi. Pétur forstöðumaður hefur m.a. gengið með þá hugmynd í maganum að sett verði á fót starfsemi á Akureyri, þar sem stúlkur sem útskrifast frá Laugalandi, gætu dvalið í framhaldinu og m.a. farið í nám í VMA. Mikilvægt væri að halda stúlkum og drengjum frá óæskilegum félagsskap, að lokinni meðferð.