4. sept - 11. sept - Tbl 36
Agnes og Ólöf Norðurljósin 2023
Agnes Emma Charlesdóttir Guanci, sex ára, og Ólöf Birna Kristjánsdóttir, níu ára, voru valdar Norðurljósin 2023, hæfileikakeppni sem haldin var í tengslum við jólatónleikana Jólaljós og lopasokkar sem verða haldnir í Hofi á Akureyri laugardaginn 2. desember. Stelpurnar munu koma fram á tónleikunum og syngja þar jólalag við undirleik hljómsveitar kvöldsins.
Fjöldi umsókna barst inn en fólk tók þátt með því að senda inn upptökur af sér. Fólki var velkomið að sýna þann hæfileika sem það kaus helst en þó voru flestir sem ákváðu að syngja. Dómnefnd var svo fengin til að velja sigurvegarar en eftir miklar umræður reyndist það ómögulegt. Þess vegna ákvað dómnefnd að velja tvo sigurvegara, þær Agnesi og Ólöfu.
Þær verða nú meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum ásamt Drottningum, Jónínu Björtu Gunnarsdóttur, Kristjönu Arngrímsdóttur, Björgvini Franz Gíslasyni og Vilhjálmi B. Bragasyni. Auk þeirra verða á sviðinu Sönghópurinn Rok, fimm manna hljómsveit og dansarar.
Þau sem hafa áhuga á því að sjá og heyra stjörnur framtíðarinnar, Norðurljósin 2023, geta enn tryggt sér síðustu miðana á Jólaljós og lopasokka.
Athugasemdir