Ágæt staða í byggingaiðnaði á Akureyri
Heimir segir að verulega hafi fækkað á atvinnuleysisskrá á milli mánaða og séu nú innan við 20 smiðir á skrá, en hafi verið allt að 70 talsins þegar mest var nokkru eftir hrun. Hann hefur starfað hjá félaginu í fjögur ár og var enginn smiður á atvinnuleysiskrá þegar hann byrjaði, „og ég hlakka mikið til þegar sú staða kemur upp aftur," segir Heimir. Fjórir stærstu byggingaverktakarnir, SS Byggir, Hyrna, Tréverk og ÁK-smíði hafa næg verkefni sem stendur, en Heimir segir að staðan sé nú þannig að menn sjái ekki langt fram í tímann. „Verkefnin verða næg í sumar, en hvað gerist í haust er erfiðara um að segja." Heimir á þó von á að menn hafi eitthvað í höndunum og hægt og rólega nái byggingaiðnaður vopnum sínum, þó hann fari sennilega aldrei á sama flug og var fyrir hrun.