Afturbati eða sama tóbakið?

Ragnar Sverrisson, kaupmaður
Ragnar Sverrisson, kaupmaður

Ragnar Sverrisson skrifar

Nýja bæjarstjórnin á Akureyri spyr okkur bæjarbúa þessa dagana hvernig við viljum haga íbúasamráði og er óskað eftir áliti og ábendingum íbúa um það sem betur má fara í þeim efnum. Á vefsíðu bæjarins eru auk þess tíunduð ítarlega áform bæjarstjórnarinnar sjálfrar á þessu sviði og kallað eftir viðbrögðum bæjarbúa við þeim fyrir 22. september.  Í tillögunum er meðal annars sagt:  „Gengið verði lengra í samráði um skipulagsmál en lög gera ráð fyrir með það að markmiði að tryggja aðkomu íbúa eins snemma í ferlinu og mögulegt er.” Enn fremur segir: „Íbúasamráði telst ekki lokið fyrr en þátttakendum hefur verið svarað.” Fleiri göfug markmið eru talin upp svo ókunnugir gætu hreinlega tárast að lesa svo hugljúfan texta. Eftir sem áður virka þessi áform bæjaryfirvalda fyrir kunnuga eins og risavaxinn brandari eða öfugmæli þegar tillit er tekið til hvernig sama bæjarstjórn hagaði sér í þessum efnum á síðasta kjörtímabili.  Ekki hef ég tölu á því hve oft ég gerði opinberlega athugasemdir við breytingar sem síðasta bæjarstjórn vann illu heilli að á þágildandi miðbæjarskipulagi. Aldrei – ég endurtek: ALDREI – var mér eða öðrum svarað eða reynt að færa rök fyrir breytingum sem bæjarstjórnin stefndi að. Þess í stað voru gerð hrossakaup um þann ófögnuð allan í lokuðu rými innan bæjarstjórnar og þeim svo þröngvað í gegn án nokkurs samráðs við bæjarbúa. Alveg sama þótt vandaðar greinargerðir hafi verið sendar með alvarlegum athugasemdum eða spurningum beint til bæjarstjórnar í heild eða til einstakra forystumanna – því var einfaldlega ekki svarað, aðeins dauðaþögn.

Með hliðsjón af ofangreindri framkomu við bæjarbúa er engu líkara en bæjarstjórnin sé orðin eins konar umskiptingur því nú virðist ekkert lengur því til fyrirstöðu að hafa eðlilegt samráð við íbúa bæjarins og jafnvel talið æskilegt!

Við höfum svo sem áður heyrt að bæjarfulltrúar séu áhugasamir um að leita til bæjarbúa um ráð en gera svo ekkert með þau þegar til kastanna kemur. Ekki var einu sinni unnt að hafa samráð við bæjarbúa um reglur varðandi útigöngu katta jafnvel þó bæjarfulltrúar hafi lýst vilja til þess. Eflaust þægilegra að ákveða slíkt í lokuðum herbergjum þó liðið neyddist svo til að  snúa til baka með allt á hælunum. Nú bregður svo við að ganga á framar gildandi reglum um samráð og slá öll met í þeim efnum. Óskað er eftir viðbrögðum frá bæjarbúum við þessum hátimbruðu tillögum innan þriggja vikna og látið eins og þau komi til með að skipta einhverju máli. Með hliðsjón af sorglegri reynslu er ekki hægt að ráðleggja nokkrum manni að eyða tíma í að svara slíkum tilmælum frá bæjarstjórn nema því aðeins að fyrir liggi skýr yfirlýsing frá bæjarfulltrúum að hlustað verði á athugasemdir, þær ræddar og fái eðlilega meðferð öfugt við það sem gert hefur verið síðustu ár. Að öðrum kosti verður að líta þetta framlag bæjarstjórnar um aukið íbúasamráð eins og enn einn drepfyndinn farsa á fjölum Leikfélagsins.  Nema jákvæð þróun sé orðin svo stórbrotin í nýrri bæjarstjórn  að jafna megi við stökkbreytingu í náttúrunni sem enginn skilur. Það yrði þá saga til næsta bæjar.

Ragnar Sverrisson

kaupmaður


Athugasemdir

Nýjast