Aftur hafði KR betur

KR-ingar styrktu stöðu sína á toppi Pepsi-deildar karla í knattspyrnu er þeir lögðu Þórsara að velli, 2:1, á Þórsvelli í kvöld í 15. umferð deildarinnar. Það var því engin hefnd hjá Þór í kvöld fyrir tapið í bikarúrslitunum síðustu helgi. Sveinn Elías Jónsson kom Þór yfir um miðjan fyrri hálfleik en Kjartan Henry Finnbogason jafnaði metin úr vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik. Manni færri skoruðu KR-ingar sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok og þar var að verki fyrirliði gestanna, Grétar Sigfinnur Sigurðsson. Það var vel mætt á Þórsvöllinn í kvöld en áhorfendur voru alls 1402 og þó nokkuð var af stuðningsmönnum KR.

 

Leikurinn var nokkuð jafn fyrstu mínúturnar. KR-ingar höfðu undirtökin en Þórsarar komust meira inn í leikinn er á leið. Heimamenn náðu svo forystunni á 22. mínútu með afar laglegu marki frá Sveini Elíasi Jónssyni, en þetta var jafnframt fyrsta færi leiksins. Aleksandar Linta átti sendingu inn á Svein Elías sem lék á tvo varnarmenn KR í teignum og skoraði með góðu skoti í fjærhornið. Staðan 1:0.

Sveinn Elías var svo nálægt því að bæta við öðru marki skömmu síðar en skot hans fór rétt yfir markið.Jafnræði var með liðunum það sem eftir var leiks þar sem hvorugt liðið náði að skapa sér marktækifæri. Það voru helst tilþrif Atli Sigurjónssonar á miðjunni sem gladdi augu áhorfenda á Þórsvelli en þessi lipri miðjumaður fór oft á tíðum illa með KR-ingana í fyrri hálfleik.

Staðan 1:0 í hálfleik.

KR-ingar pressuðu heimamenn stíft í upphafi seinni hálfleiks og það var nálægt því að skila marki á 49. mínútu. Grétar Sigfinnur Sigurðsson átti þá skot rétt framhjá markinu eftir flott spil við Baldur Sigurðsson. KR-ingar fengu dæmda vítaspyrnu á 59. mínútu er Atli Sigurjónsson togaði Björn Jónsson niður í teignum. Kjartan Henry Finnbogason fór á punktinn og skoraði í blá hornið vinstra megin. Srdjan Rajkovic markvörður Þórs var í boltanum og nálægt því að verja, en skotið var of utarlega. Staðan 1:1 og verðskuldað mark hjá KR sem höfðu fram að þessu verið mun betri í seinni hálfleik.

KR-ingar misstu mann af velli þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum en Kjartan Henry Finnbogason fékk þá sitt annað gula spjald og þar með rautt. Þórsarar náðu hins vegar ekki að nýta sér liðsmuninn og líkt í bikarleiknum efldust KR-ingar manni færri. Það var á 87. mínútu sem sigurmarkið kom og það gerði fyrirliði KR, Grétar Sigfinnur Sigurðsson, er hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu frá Agli Jónssyni.

Lokatölur 2:1 sigur KR og enginn hefnd hjá Þórsurum í kvöld.

Eftir sigurinn í kvöld er KR með 33 stig á toppnum en Þór hefur 17 stig í áttunda sæti.

 

Nýjast