Afstaða Sigurðar endurspeglar þekkingarleysi hans á málinu

"Þessi afstaða Sigurðar endurspeglar í raun þekkingarleysi hans á málinu. Embættismenn bæjarins hafa ekki verkfallsrétt, né rétt á að vera í stéttarfélagi og launakjör þeirra heyra beint undir bæjarstjóra," segir Oddur Helgi Halldórsson formaður bæjarráðs, vegna fréttar á vikudagur.is. Sigurður gagnrýndi harðlega þá ákvörðun bæjarráðs að að taka aftur upp greiðslur í námsstyrkjasjóð embættismanna bæjarins frá og með 1. ágúst nk.    

"Þeir hafa því í raun ekki samningsrétt. Bæjarfélagið greiðir því ekki af þeim launatengd gjöld  eins og öðrum starfsmönnum. Fyrir allmörgum árum varð það að samkomulagi að í stað þessarra gjalda var greitt 4% í endurmenntunarsjóð. Er þetta því í raun hluti af þeirra kjörum. Við hrunið á haustdögum 2008 tók bæjarstjórn einhliða ákvörðun um að fella þessar greiðslur tímabundið niður. Hefur því ekki verið greitt í þennan sjóð frá ársbyrjun 2009. Embættismenn hafa ekki fengið aðrar launahækkanir síðan 1. janúar 2007. Bæjarráð taldi því eðlilegt að taka upp þessar greiðslur aftur núna frá og með 1. ágúst, því í raun er þetta hluti af starfskjörum embættismanna og ákvörðunin var á sínum tíma um tímabundna niðurfellingu," segir Oddur Helgi.

Nýjast