Afsláttarkort óháð búsetu

Sérstakt afsláttarkort mun standa öllum til boða en mun gagnast þeim best sem búa á Akureyri eða dve…
Sérstakt afsláttarkort mun standa öllum til boða en mun gagnast þeim best sem búa á Akureyri eða dvelja þar í lengri tíma.

Stjórn Akureyrarstofu hefur samþykkt að skipa vinnuhóp með fulltrúum frá stjórnsýslu-, fjársýslu- og samfélagssviði bæjarins vegna fyrirhugaðs afsláttarkorts og felur hópnum að skila af sér tillögu um málið fyrir árslok. 

Markmiðið með vinnu hópsins verður að þróa afsláttarkort sem færi þeim hagstæðari kjör sem noti ákveðna þjónustu bæjarins mikið. Kortið myndi þá nýtast bæði þeim sem búa á Akureyri og þeim sem dvelja hér um lengri tíma.

„Þar sem innleiðing kortsins hefði í för með sér áhrif á gjaldskrá á fleiri en einu sviði er nauðsynlegt að stoðsvið bæjarins komi að vinnunni,“ segir í
bókun. 

Eins og greint var frá í Vikudegi í síðustu viku var Akureyrarbær með sérstakt íbúakort í undirbúningi sem hefði þá eingöngu veitt bæjarbúum afslátt að stofnunum eins og Hlíðarfjalli og Sundlaug Akureyrar.

Lögmaður Akureyrarbæjar sagði það slæman kost og að misjöfn gjaldskrá eftir búsetu hefði hvorki stoð í lögmætisreglunni né reglunni um málefnaleg sjónarmið. Ef stofnun er háð opinberum styrkjum ættu allir að fá að njóta þjónustu hennar, óháð búsetu.

Þórgnýr Dýrfjörð hjá Akureyrarstofu segir nákvæma útfærslu á afsláttarkortinu ekki liggja fyrir. „Kortið mun standa öllum til boða en mun væntanlega best gagnast þeim sem eru hér mikið,“ segir Þórgnýr.

Nýjast