Áfram verði hægt að selja heimabakstur í fjáröflunarskyni
"Frá stofnun Slysavarnafélags Íslands árið 1928 hafa slysavarnadeildir félagsins selt heimabakað góðgæti. Með slíkri sölu hafa þær fjármagnað öflugar slysavarnir og greitt fyrir björgunartæki og búnað björgunarsveita, landsmönnum öllum til heilla. Ljóst er að heimabaksturinn er meðal mikilvægustu fjáröflunarleiðum sem slysavarnadeildir hafa yfir að ráða í dag," segir ennfremur í áskoruninni.
Ráðherra hefur sagt að málið sé nú þegar í undirbúningi í ráðuneyti sínu og að það verði að öllu forfallalausu lagt fram í byrjun næsta þings nú í haust. Eins og flestum er kunnugt fengu konur á Akureyri ekki leyfi til að selja múffur í góðgerðarskyni um síðustu verslunarmannahelgi eins og þær gerðu í fyrra, þar sem þær voru bakaðar í heimahúsi en ekki viðurkenndu eldhúsi. Konurnar gripu þá til þess ráðs að bjóða í lautarferð í Lystigarðinum á Akureyrarvöku, þar sem gestir og gangandi gátu smakkað fallega skreyttar múffur og styrkt um leið gott málefni. Rúm hálf milljón króna safnaðist í lautarferðinni.