Velferðarkerfið er mikilvægasta stoð hvers samfélags. Stjórnmálamenn geta beitt sér fyrir byggingu húsa og lagningu vega og haft uppi fögur fyrirheit um þetta og hitt en þeir verða fyrst og síðast dæmdir af þeim gjörðum sem varða heilsu og velferð samborgaranna.
Um þetta er ekki deilt á Akureyri. Um langt skeið hafa bæjaryfirvöld viljað efla velferðarkerfið og í því augnamiði tekið að sér rekstur ýmissa stofnana til að færa þjónustuna nær bæjarbúum en gerist víðast hvar annars staðar. Má þar nefna málaflokk fatlaðra sem bærinn tók að sér sem reynslusveitarfélag, rekstur öldrunarheimila og heilsugæslunnar.
Að baki velferðarkerfinu á Akureyri liggur sú hugmyndafræði að þjónustan sé á forsendum notenda en ekki kerfisins. Í því felst að þjónusta er veitt þvert á stofnanir og deildir. Forsenda þessa fyrirkomulags er að bærinn annist alla þjónustu; að allt sé á einum stað. Þannig komum við í veg fyrir að fólki sé vísað á milli stofnana eins og margir þekkja annars staðar frá. Það er skemmst frá því að segja að sveitarstjórnarmenn víða um land horfa öfundaraugum til Akureyrar og vilja taka upp Akureyrarmódelið svo nefnda.
Blikur á lofti
Það er ekki sjálfgefið að velferðarþjónustan á Akureyri verði áfram með núverandi hætti. Óvissa ríkir um rekstur og starfsemi Heilsugæslunnar en hún er mikilvægasti hlekkurinn í keðjunni. Bæjarbúar vita þetta. Það er löng bið eftir viðtali við lækni, þúsundir bæjarbúa hafa ekki fastan heimilislækni og svo mætti áfram telja.
Ástæðan þessa er sú að um langa hríð hefur ríkið ekki lagt nægilegt fé til starfseminnar. Bærinn hefur reynt hvað hann getur til að brúa bilið og frá 2008 hafa samtals 160 milljónir runnið til heilsugæslunnar, umfram formlegar skuldbindingar. En það dugar ekki til. Starfsmenn eru of fáir og launin lægri en á öðrum heilsugæslustöðvum.
Ríkisvaldið hefur í raun leikið okkur grátt. Samningar um reksturinn hafa verið lausir í næstum því ár og á sama tíma eru hafnar umræður um sameiningu heilbrigðisstofnana í fjórðungnum. Þannig hefur Akureyrarbæ verið gert ófært að auglýsa stöður framkvæmdastjóra, hjúkrunarforstjóra og lækna. Í heilbrigðisráðuneytinu er full vitneskja um staðreyndir. Ríkið hefur boðist til að hækka árleg framlög til heilsugæslunnar um 25 milljónir króna, vitandi þó að 60 milljónir króna þurfi bara til að leiðrétta launamun. Er þá ekki gert ráð fyrir fjölgun starfsmanna sem þó er nauðsynleg.
Hagsmunir hverra?
Í ljósi staðreynda var furðulegt að heyra af því að Eva Hrund Einarsdóttir, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins til bæjarstjórnar, hafi haft þau orð uppi á framboðsfundi í Menntaskólanum á Akureyri að Sjálfstæðisflokkurinn myndi verða í betri aðstöðu en aðrir til þess að beita sér fyrir auknum fjárveitingum til Heilsugæslunnar. Mun hún reyndar hafa talað um að snúið yrði upp á handlegg heilbrigðisráðherrans.
Nú er það svo að heilbrigðisráðherrann er fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og honum er fullkunnugt um hvernig Akureyrarbær stendur að rekstri Heilsugæslunnar. Starfsemin er í öllum meginatriðum með sama hætti og var þegar hann var bæjarstjóri. Því mætti ætla að talsverður skilningur ríkti en svo virðist ekki vera.
Ég er auðvitað forvitinn um þá töfralausn sem Sjálfstæðismenn á Akureyri telja sig hafa til að sannfæra heilbrigðisráðherra um að meiri peninga þurfi til heilsugæslunnar. Það verður ekki gert með því að snúa upp á handlegg.
Öll okkar vinna hefur miðast við að veita beri Akureyringum bestu mögulegu þjónustu sem völ er á og að jafnræði eigi að ríkja. Við höfum rekið málið gagnvart ríkisvaldinu með rökum og staðföstum málflutningi og sýnt fram á að jafnræði gildi ekki ef litið er til reksturs annarra heilsugæslustöðva. En ef til vill er ég ákaflega einfaldur maður að sýsla í heimi þar sem rök og jafnræði eru léttvæg þegar kemur að hreinu handafli flokkspólitíkurinnar. Því vil ég ekki trúa.
Dagur Fannar Dagsson, skipar þriðja sæti framboðslista L-listans á Akureyri