Áfram Ísland - Halldór Jóhann Sigurðsson skrifar

Halldór Jóhann Sigurðsson
Halldór Jóhann Sigurðsson

Halldór Jóhann Sigfússon fyrrum leikmaður KA núverandi handboltaþjálfari hjá danska úrvalsdeildarliðinu TTH Holstebro sem í sumar tekur við liði Nordsjælland skrifar um HM í handbolta fyrir lesendur Vikublðasins.

Halldór  sem hefur þjálfað hjá Fram, FH  og á Selfossi  stýrði einnig liði Barein á HM i handbolta 2021.  Kappinn  veltir fyrir sér  HM i handbolta  og möguleikum okkar manna í riðlinum sterka.  Við skulum gefa honum  orðið!

 Þá er janúarmánuður genginn í garð í allri sinni dýrð! Kannski ekki það sem flestir hugsa en við handboltafólk hugsum nákvæmlega á þennan hátt.  Enn eitt skiptið eru strákarnir okkar á stórmóti í janúar, varla misst úr stórmóti í yfir 20 ár.  Er það sjálfsagt fyrir þjóð sem telur um 360.000 manns?

 Mig langar aðeins að ræða okkar lið og möguleikana á HM 2023 í þessum pistil.

 Við höfum sjaldan verið með eins marga leikmenn í toppformi og að spila í sterkustu deildum í heimi eins og á þessari stundu.

Ef við förum aðeins yfir liðið okkar þá er alveg ljóst að það er feiki sterkt.

Ef við nefnum fyrst alla heimsklassa leikmennina okkar þá hafa þeir sennilega aldrei verið fleiri. Viktor Gísli Hallgrímsson, Bjarki Már Elísson, Aron Pálmarsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Sigvaldi Guðjónsson.

Við erum með 6 byrjunarliðsmenn í heimsklassa, aðeins línumanns staðan sem er ekki í heimsklassa.  Línumennirnir okkar hafa samt allir verið að spila vel í vetur með liðum sínum í þýsku búndesligunni, sem er sterkasta deild í heiminum.

Fyrir aftan okkar heimsklassa leikmenn eigum við samt frábæra leikmenn sem eru að spila frábærlega í þýsku, frönsku og dönsku deildunum en þessar þrjár deildir eru sterkastar í Evrópu.

Ef við lítum aðeins á riðilinn okkar þá er hann mjög sterkur og kunnuglegar þjóðir sem við mætum.

Portúgal er frábært lið sem er að koma með unga kynsóð í bland við eldri leikmenn sem eru að spila með sterkum liðum í Evrópu.  U20 ára lið Portúgal hafnaði í öðru sæti á EM sl sumar sem sýnir hvað þessir ungu leikmenn eru sterkir og hvað þeir hafa gert vel sl ár í sinni uppbyggingu.

Ungverjarar eru alltaf sterkir og ég óttast þá mest liða í riðlinum eftir vonbrigin á sl móti fyrir ári á þeirra heimavelli.  Ungverjar hafa verið í miklum breytingum á liði sínu sl ár og tel ég þá koma afar sterka til leiks á HM á þessu ári.  Ungverjar eiga ekki oft tvö vonbrigða stórmót í röð.

Suður Kórea er algjörlega óskrifað blað.  Ég að vísu mætti þeim í æfingarleik í ágúst með liði mínu TTH Holstebro en þá voru þeir í æfingarferð í Danmörku.  Erfitt er að segja til um styrkleika þeirra eftir þá dvöl því það vantaði 4 bestu leikmennina sem voru uppteknir með hernum í heimalandinu.  Þeir hafa verið að spila æfingarleiki núna á sl vikum og virðast vera sýnd veiði en ekki gefin. 

Við eigum samt að vinna Suður Kóreu!

Miðað við mótherja okkar þá eigum við að taka fyrsta eða annað sætið í riðlinum.  Getum við sagt að það sé krafa, já ég mundi segja það.  Ekkert hinna liðanna er með 6 heimsklassa leikmenn í sínum röðum.

Við elskum að hafa skoðanir á Strákunum Okkar og það er af því að þeir hafa gefið þjóðinni svo mikið í gegnum tíðina, sorg og gleði.

Við erum handboltaþjóð og það syndi sig best þegar kunngjört var í lok árs hvaða útsendingar í sjónvarpi höfðu  mesta áhorfið, íslenska landsliðið var með mesta áhorfið eða 45,8% í leiknum við Frakka á EM í fyrra.  Einnig má nefna að Strákarnir Okkar áttu 8 af 10 útsendingum á top 10 listanum.  Hver ætlar að núna að neita fyrir það að við séum handboltaþjóð?

Til hamingju með janúar mánuð og til hamingju með þetta frábæra landslið sem við eigum.  Ef við forum ekki langt á þessu móti þá gerum við það bara næst, munið það J

Áfram Ísland

Halldór Jóhann Sigfússon

 


Athugasemdir

Nýjast