Aflið fær bætta aðstöðu

Sigrún Finnsdóttir formaður Aflsins og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri við undirritun samning…
Sigrún Finnsdóttir formaður Aflsins og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri við undirritun samningsins. (Ljósmynd: Akureyrarstofa / Þórgnýr Dýrfjörð)

 Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi og Akureyrarbær , undirrituðu í gær samstarfssamning sem felur í sér aukinn stuðning Akureyrarbæjar við Aflið með því að húsnæðismálum Aflsins verður komið í viðunandi horf, þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Með samningnum er stefnt á að efla þjónustu við þolendur heimilis- og kynferðisofbeldis og aðstandendur þeirra. Samstarf verður aukið við þá aðila sem vinna með fólki sem glímir við afleiðingar heimilis- og kynferðisofbeldis. Forvarnarstarf verður einnig eflt og samstarf þeirra sem vinna að forvarnarstarfi innan málaflokkanna, sérstaklega gagnvart börnum. Loks á að efla tengsl og samstarf Aflsins við félagsþjónustu bæjarins og barnavernd.

„Samningurinn felur í sér að Akureyrarbær veitir Aflinu styrk í formi afnota að húsnæðinu í Gamla spítala (Gudmans Minde) að Aðalstræti 14. Þar með verður hinu mikilvæga starfi sem Aflið sinnir komið í fullnægjandi húsnæði á Akureyri. 

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri er ánægður með að samkomulag hafi náðst á milli Akureyrarbæjar og Aflsins um starfsemina til næstu ára. Aflið hefur unnið ómetanlegt starf í samfélaginu og langt út fyrir sveitarfélagið. Það er mikilvægt fyrir Akureyrarbæ að geta aðstoðað þennan öfluga hóp kvenna sem stendur að baki starfinu,“ segir í tilkynningunni.

Sigrún Finnsdóttir formaður Aflsins segir að þessi tímamót í starfseminni séu sérstaklega mikilvæg og geri samtökunum kleift auka og þróa þjónustuna enn frekar við þolendur heimilis- og kynferðisofbeldis. „Mjög ánægjulegt er að finna fyrir auknum stuðningi og skilningi í samfélaginu og þeirri vitundarvakningu sem skilar sér í því að fleiri sækja sér hjálp sem enga fengu áður. Þessi samningur við Akureyrarbæ er Aflinu gríðarleg hvatning til áframhaldandi starfa,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Samningurinn gildir til ársloka 2018 og verður þá tekinn til endurskoðunar. /epe

 

 

 

Nýjast