Aflabrögð góð og vel hefur gengið í vinnslunni hjá Samherja
Snæfell EA landaði á Akureyri í vikunni úr veiðiferð sem hófst í byrjun ágúst. Skipið var að veiðum á Vestfjarðamiðum og var uppistaðan ufsi og svo karfi. Afli Snæfellsins var um 445 tonn af frosnum afurðum og aflaverðmætið um 270 milljónir króna. Þá landaði Oddeyrin í gær en skipið var að veiða karfa og grálúðu djúpt út af Vestfjörðum. Oddeyrin landaði um 340 tonnum af frosnum afurðum og er aflaverðmætið tæpar 200 milljónir króna. Kristján segir að Snæfellið haldi til ísfiskveiða næstu vikurnar og fiski fyrir vinnslur Samherja á Dalvík og Akureyri.
Björgvin EA landaði fyrir helgi um 270 tonnum af frosnum afurðum, uppistaðan var ufsi og karfi og var aflaverðmætið um 160 milljónir króna. Björgvin er nú komin í slipp á Akureyri en fer til veiða á ný upp úr miðjum september, að sögn Kristjáns. Björgúlfur EA landaði 100 tonnum af þorski sl. sunnudag og aftur 100 tonnum á miðvikudag og fór aflinn til vinnslu á Akureyri og Dalvik.
Þá landaði Baldvin NC, í sextánda og síðasta sinn í bili, á Dalvík í fyrrakvöld. Aflinn var um 180 tonn af ferskum þorski en skipið hefur verið við veiðar á Grænlandsmiðum. Kaldbakur EA er að koma úr slipp eftir viðhald og málun og heldur til veiða fljótlega.