Af skólamálum og naflaskoðunum

Skólamálin eru einn stærsti einstaki kostnaðarliðurinn hjá Akureyrarbæ og þarf vart að tíunda mikilvægi þessa stóra málaflokks.  Þó er vert að íhuga hvernig við sem foreldrar og íbúar bæjarins viljum að staðið sé að þessum málum.

26%

Í dag ganga 2644 börn í grunnskóla Akureyrar. 1103 börn eru vistuð í leikskólum bæjarins og 160 dvelja hjá dagforeldrum. 790 einstaklingar vinna í þessum skólum og eru á launaskrá bæjarins, að auki eru 38 dagforeldrar á skrá. Allur þessi hópur telur saman um 26% af íbúum sveitarfélagsins.

Hér er um að ræða fólk sem stuðlar að hamingjusömu og farsælu þjóðfélagi framtíðarinnar, kennararnir og börnin sjálf sem erfa skulu landið. Hin bjarta framtíð okkar, svo ég nái nú örugglega að klína pólitískum áróðri í þennan pistil. Hvernig getum við sýnt það í verki að þessi málaflokkur sé okkur mikilvægur, líklega mikilvægastur allra?

Velferð

Jú, við þurfum að tryggja velferð allra sem að þessu kerfi koma. Velferð barnanna, velferð starfsfólksins og velferð bæjarbúanna.

Börnin eiga að útskrifast úr þessu kerfi með heildstætt veganesti í farteskinu, s.s. góða félagslega færni, þekkingu og leikni í hinum fjölbreyttustu námsþáttum, kröftuga sköpunargleði, virðingu fyrir náttúru og umhverfi og opinn hug gagnvart tækifærum framtíðarinnar.

Til að af þessum háleitu en þó raunhæfu markmiðum verði þarf líka að huga að þeim sem stýra skólastarfinu, skólastjórnendum, kennurum og starfsfólki öllu.

Viljum við geta státað okkur af því að eiga besta skólakerfi í heimi? Viljum við að fólk velji sér búsetu hér á Akureyri einmitt vegna framúrskarandi skólaumgjarðar á öllum stigum?

Naflaskoðun

Við viljum og væntum þess að starfsfólk leggi sig fram að öllu leyti. Á hinn bóginn má líka vænta þess af okkur að við skattgreiðendur og bæjarbúar hlúum að þessum hóp og látum okkur hag þeirra varða. Þeirra hagur er okkar hagur líka. Ríkir almenn ánægja meðal starfsfólks um þær kröfur sem til þeirra eru gerðar? Er álag í starfi viðunandi? Ríkir sátt um kaup og kjör? Ef einhverjum þessa þátta er ábótavant, hverju viljum við þá sem samfélag til kosta til að bæta ástandið?

Farsælt skólakerfi er ekki kerfi stöðnunar heldur lifandi kerfi sem er í sífelldri naflaskoðun og vinnur stöðugt að því að bæta sjálft sig. Samvinna allra sem að máli koma skiptir sköpum. 

 Áshildur Hlín Valtýsdóttir.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Bjartrar framtíðar á Akureyri, er grunnskólakennari, á sæti í skólanefnd og er sérlega virkur meðlimur í öllu foreldrastarfi er viðkemur skólagöngu barna sinna fjögurra.

 

 

Nýjast