Það er margt sem kemur manni í jólaskap og fyrir suma er það skötuveisla á Þorláksmessu. Sumum Íslendingum finnst kæst skata vera herramannsmatur á meðan aðrir eru ósammála, aðallega vegna hins einstaka ammoníaksfnyks, sem á það til að vera yfirþyrmandi og gæti sest í fötin. Það er fyrst og fremst fnykurinn sem gerir skötuna óvinsæla í sumum fjölbýlishúsum.
Könnun hjá MMR frá 2019 segir að þriðjungur landsmanna haldi upp á Þorláksmessu með skötu, en hvaðan kemur þessi siður eiginlega?
Samkvæmt Árna Björnssyni, doktor í menningarsögu, þá var það kaþólskur siður að fasta fyrir jólin og borða ekki mikið góðgæti eða kjöt á dánardegi heilags Þorláks dýrlings, sem dó 23. desember árið 1193. Þess vegna var borðað lélegt fiskmeti á Þorláksmessu, en það var mismunandi eftir landshlutum hvers konar fiskur var borðaður.
Á þeim tíma var skatan aðallega veidd á Vestfjörðum, en hún var ekki talin góðgæti og þess vegna var það algengur réttur á Þorláksmessu þar. Í gegnum tíðina gerðu Vestfirðingar sér skötustöppu sem þótti vera ljúfmeti (kannski í samanburði við skötuna). Þá var lyktin af skötustöppunni táknræn fyrir suma um að jólin væru að nálgast.
Í kjölfar þéttbýlisvæðingarinnar snemma á 20. öld, þegar fólk úr öllum áttum á landsbyggðinni flutti á höfuðborgarsvæðið, breiddist skötuátið út. Ástæðan var m.a. sú að brottfluttir Vestfirðingar – sem söknuðu Þorláksmessuskötunnar – fóru að elda hana heima hjá sér.
Siðurinn dreifði sér eins og lyktin og á sjötta áratugnum voru margar fiskbúðir á höfuðborgarsvæðinu byrjaðar að bjóða upp á skötu til sölu í desember. Síðastliðin 25 árin hefur þeim veitingastöðum fjölgað sem bjóða upp á skötuveislu í hádeginu á Þorláksmessu. Að borða skötuna á veitingastað er tilvalið fyrir þá sem vilja sleppa við að heimilið angi eins og kæst skata.
Veitingamaðurinn Einar Geirsson, eigandi Bautans, segir andrúmsloftið í eldhúsinu, þegar Bautinn heldur sína árlegu skötuveislu, skemmtilegt.
Þegar Einar er spurður hvort að sterka lyktin sé nokkuð fráhrindandi fyrir starfsmennina, svarar hann: „Þvert á móti! Það er gaman að sjá hversu spenntir kokkarnir eru fyrir matreiðslunni, sérstaklega þeir sem eru af erlendum uppruna og eru ekki vanir að elda skötu en eru ákafir í að læra.“
Í fyrra var skötuveislan með breyttu sniði á Bautanum, þá var ekki hlaðborð eins og vanalega heldur var maturinn borinn á borð til að tryggja að sóttvarnareglur væru virtar en einnig var boðið upp á útrétt (e. take away) til að taka með sér heim. „Við höfðum líka skötuveisluna allan daginn frekar en bara í hádeginu út af þessu breytta sniði. Þá sáum við samstarfsfélaga eða vinahópa hittast í hádeginu en fjölskyldurnar mættu í kvöldmat.“
Samkvæmt Einari voru gestirnir aðallega Íslendingar á öllum aldri, en nokkrir ferðamenn vildu forvitnast og einhverjir þeirra þorðu að prófa skötuna. Ekki hefur verið ákveðið hvort að skötuveislan verði svipuð í ár og í fyrra eða hvort aftur verður boðið upp á hefðbundið hlaðborð. Gildandi sóttvarnareglur ráða því enn og aftur þegar nær dregur Þorláksmessu.
Þó að Þorláksmessuskatan sé gamall siður að vestan, ættuð úr kaþólskri trú, er landsbyggðin töluvert duglegri að halda upp á hana en þéttbýlisbúar, samkvæmt könnun MMR. Undirrituð er mögulega ekki óhlutdræg því sjálf kýs hún að borða kæsta skötu hjá pabba sínum, sem heldur stíft í þessa gömlu hefð, og mælir með að fólk prófi það allavega einu sinni.
KH