Af gömlum vana

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

Margt af því sem við gerum í lífinu er byggt á vana. Hversdagslegir hlutir eins og að bursta tennurnar eða fara í sokkana fyrst eða síðast.
Vanar og viðhorf sem við sköpum okkur meðvitað eða ómeðvitað. Að ógleymdum hlutum sem við venjum okkur á frá öðrum, t.d. foreldrum okkar eða systkinum. Já, þessi gerði þetta alltaf svona og þessvegna geri ég það. Eitthvað sem mér var kennt eða eitthvað sem ég horfði á einhvern gera síendurtekið.
Sagan af hangilærinu er líklega eitt þekktasta dæmið um vana byggðan á misskilningi. Kona ein skar hangilærið alltaf í tvo hluta áður en það fór í pottinn. Þeir sem horfðu á lærðu af og héldu áfram í sínum búskap. Þegar einhver spurði hvers vegna þyrfti að skera lærið í tvennt var fátt um svör, en þó hélt viðkomandi að það væri einfaldega betri eldunaraðferð, að sjóða tvo minni parta frekar en einn stóran.

Þegar farið var að grennslast fyrir um uppruna vanans, kom í ljós að konan sem átti heiðurinn af vananum átti ekki nógu stóran pott fyrir heilt læri og því var eina ráðið að taka það í sundur.
Þegar við förum að skoða vanana okkar komumst við svo jafnvel að því að alls ekki allir vanar eru uppbyggilegir. Við erum kannski vön að tala neikvætt til okkar sjálfra eða að pirra okkur á smámunum. Við borðum kannski til að gleyma eða gleymum að borða.

En þegar kemur að því að breyta vana er það hægara sagt er gert. Flestum ber saman um að til þess að breyta vana sem þjónar ekki lengur, þarf eitthvað að koma í staðinn. Svolítið eins og nýtt forrit eða ný uppfærsla í tölvukerfinu. Og miðað við hversu oft uppfærslurnar bjóðast í tölvum nú til dags, væri kannski ekki úr vegi að uppfæra eitthvað af sínum gömlu vönum og viðhorfum samhliða.


Nýjast