Ævintýralegir páskar hjá Leikfélagi Akureyrar

Persónur úr Gulleyjunni spjölluðu við krakkana og sungu fyrir þau lög úr leikritinu.
Persónur úr Gulleyjunni spjölluðu við krakkana og sungu fyrir þau lög úr leikritinu.

Það var mikið um að vera hjá Leikfélagi Akureyrar um páskana. Á skírdag var Gulleyju-ævintýramorgunn  í Samkomuhúsinu þar sem krökkum var boðið að koma og eiga þar sjóræningjastund. Þarna stigu á stokk nokkrar persónur úr Gulleyjunni, spjölluðu við krakkana og sungu fyrir þau lög úr leikritinu. Húsið troðfylltist og langur biðlisti myndaðist. Greinilegt var að sjóræningjarnir hafa skapað sér sess í hjörtum barna á svæðinu því að mikil kátína og gleði ríkti í leikhúsinu þennan dag.

Stórhljómsveitina Hund í óskilum þarf vart að kynna fyrir landsmönnum enda eru þeir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson þekktir fyrir bráðfjöruga tónleika þar sem þeir spila á ógrynni af hljóðfærum. Tónleikhúsverkið þeirra og Leikfélags Akureyrar, Saga þjóðar, fékk stórkostlegar viðtökur þegar það var sýnd hjá leikfélaginu fyrr í vetur og komust færri að en vildu. Þeir hafa síðan þá ferðast með það suður í Borgarleikhúsið þar sem þeir flytja það hvað eftir annað fyrir fullum sal. Leikhúsgestum á Akureyri bauðst annað tækifæri á að sjá þessa tæru snilld um páskana því þá voru þeir með tvær aukasýningar í Samkomuhúsinu og mættu fjölmargir til að nýta sér það tækifæri.

Einnig voru margar sýningar á Gulleyjunni um helgina og fullt hús á hverja sýningu. Nú fer hver að verða síðastur að sjá þetta vinsæla fjölskylduleikrit því að aðeins ein sýningarhelgi er eftir!
Gulleyjan er samstarfsverkefni LA og LR. Einn ástsælasti leikari þjóðarinnar Sigurður Sigurjónsson mætir í Samkomuhúsið 12. og 13. apríl með sprenghlægilega einleikinn Afann. Þetta íslenska leikverk er framleitt af þeim sömu og gerðu Hellisbúann og Pabbann og er óhætt að segja að Afinn slái öllu við. Í verkinu er fjallað á gamansaman hátt um hlutverk afans sem er á besta aldri, í góðri stöðu, búinn að ala upp börnin sín en þá blasa við önnur verkefni eins og flóknar fjarstýringar, Viagra töflur og ekki síst – barnabörnin. Afinn er samstarfsverkefni Thorsson Productions og LR.   Vegna mikillar eftirspurnar hefur verið bætt inn aukasýningum 21. og 22. apríl. Miðasala og frekari upplýsingar um sýningar er að finna á leikfelag.is

 

Nýjast