Ætlum okkur áfram í undanúrslitin"
Fyrsti leikur í 8-liða úrslitum Valitor-bikar karla fer fram á Þórsvelli í dag en þá tekur Þór á móti
Grindavík og hefst leikurinn kl. 16:00. Liðin eru á svipuðum slóðum í neðri hluta Pepsi-deildarinnar þar sem munar aðeins stigi á
liðunum. Liðin mættust í deildarleik á dögunum þar sem Grindavík vann 4:1 á heimavelli. Síðan þá hefur leiðin
legið niður við hjá Grindvíkingum en að sama skapi hafa Þórsarar stigið á bensíngjöfina og verið stígandi í
spilamennsku liðsins.
Orri Freyr Hjaltalín, fyrirliði Grindavíkur, reiknar með hörkuleik í dag en Orri er að fara mæta sínu gamla félagi þar sem hann er uppalinn Þórsari. „Þessi leikur leggst vel í mig og það verður gaman að koma þarna á Þórsvöllinn í fyrsta sinn og spila við þá,“ segir Orri við Vikudag.
Sveinn Elías Jónsson leikmaður Þórs stefnir ótrauður á undanúrslitin. „Ég held að við eigum góða möguleika. Við höfum verið öflugir í síðustu leikjum og höfum verið í fínu formi. Við förum í þennan leik til þess að fara áfram í undanúrslitin,“ segir Sveinn.
Nánar er rætt við þá Orra Frey og Svein Elías í Vikudegi.