Ætlum ekki að láta standa á fjármögnunarþættinum
“Samkvæmt okkar upplýsingum þá verða útboðsgögn að fullu tilbúin um 20. þessa mánaðar og við ætlum ekki að láta standa á fjármögnunarþættinum frá okkar hlið,” segir Steingrímur. Hann bendir þó á að ganga þurfi frá samningi milli Vaðlaheiðarganga hf. og fjármálaráðuneytisins.
Sveitarstjórnir Svalbarðsstrandarhrepps og Þingeyjarsveitar hafa samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi vegna Vaðlaheiðarganga, sem er forsenda þess að hægt verði að senda út útboðsgögn. Ekki hefur náðst samkomulag við landeigendur og því er allt útlit fyrir að landið verði tekið eignanámi.
Allir aðilarnir sex sem þátt tóku í forvalinu, eiga þess kost að taka þátt í útboðinu. Vonast er til að hægt verði að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng í lok þessa árs eða í byrjun næsta árs.
Í tengslum við gerð Vaðlaheiðarganga þarf að byggja bráðarbirgðabrú yfir þjóðveginn hjá Hallandsnesi vegna efnisflutninga frá gangnagerðinni undir veginn. Ráðgert er að bjóða framkvæmdir við bráðabirgðabrúna út nú í haust.