Akureyri og Fram mætast í Höllinni á Akureyri í eina leik kvöldsins í N1-deild karla í handknattleik og hefst leikurinn kl. 19:15. Fyrir leikinn í kvöld munar fjórum stigum á liðunum, Fram hefur 12 stig í öðru sæti deildarinnar en Akureyri hefur 8 stig í því sjötta. Þegar liðin mættust fyrr í vetur á heimavelli Fram hafði Safarmýrarliðið betur, 31-27. Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar segir í stuttu spjalli við Vikudag um leikinn í kvöld að liðið verði að fara hala inn stigum gegn toppliðunum.
Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir okkur og núna fáum við tækifæri á að sýna að við eigum virkilega heima í efri hluta deildarinnar. Það er líka kominn tími á að fara vinna þessi lið sem eru í efri hluta deildarinnar, segir Atli.
Eftir slæma byrjun hafa norðanmenn verið að rétta úr kútnum og fengið fimm stig af síðustu sex mögulegum í deildinni. Þetta er allt að þokast í rétta átt hjá okkur og ég er ánægður með hvernig við höfum farið vaxandi eftir skellinn í bikarnum. Við þurfum núna að fara að lengja góðu kaflann, segir Atli, sem reiknar með hörkuleik í Höllinni í kvöld.
Fram liðið hefur gríðarlega sterkan hóp og ef einhver dettur út hjá þeim kemur góður maður inn í staðinn. Þetta verður vonandi hörkuleikur og við ætlum okkur klárlega tvö stig í kvöld.